Upptökurnar hafi átt erindi við almenning

02.12.2018 - 11:39
Mynd:  / 
Jón Trausti Reynisson ritstjóri Stundarinnar, segir að þegar upptökur af samtali sex þingmanna á kránni Klaustri hafi borist inn á ritstjórnina hafi hans fyrsta hugsun verið að ekkert af þessu yrði notað. Afstaðan hafi breyst við nánari hlustun.

„En svo þegar maður hlustar á þetta þá kemur náttúrlega í ljós að þeir eru þarna að játa að misfara með vald hreinlega, það vald sem almenningur treystir þeim fyrir, þeir eru að tala þarna mjög hátt inni á bar þar sem annað fólk og svo nota þeir orð um vinnufélaga sem mér finnst að vitneskjan um eigi erindi til almennings.“ 

Það hefði komið sér í opna skjöldu að kjörnir fulltrúar töluðu saman með þessum hætti yfirleitt. 

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, tekur undir með Jóni Trausta að upptökurnar hafi átt erindi við almenning. Þarna hafi særandi, meiðandi og ljót orð verið látin falla um samstarfsfólk, konur, minnihlutahópa, fólk sem hefur kvartað undan virðingarleysi. Ísland hafi verið leiðandi í jafnréttisumræðunni og hlotið lof fyrir og málið sé því rothögg. 

Vill að ríkissaksóknari rannsaki málið 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, telur að óhlutdræg málsmeðferð þurfi til því þingmenn standi of nærri málinu. Þess vegna þurfi að virkja sérstaka siðanefnd til að úrskurða í málinu. Einnig þurfi að skoða lögbrotið sem rætt sé um á upptökunum og innihald þeirra eigi tvímælalaust erindi við almenning. „Þarna er verið að tala um spillingu sem varðar við, að því að ég tel 128. grein almennra hegningarlaga, og mér finnst einboðið líka að ríkissaksóknari opni rannsókn um það hvort brot á þessu ákvæði hafi verið að ræða.“  

Hanna Katrín tekur undir með Þórhildi að það sé miður að samtal sem virðist fjalla um spillingu hafi fallið í skuggann. „Þessir nýju flokkar sem eru komnir á þing hafa talað fyrir því að og vilja berjast fyrir því að þessu sé breytt og sannarlega er ástæða til þess að skoða þetta eins og hægt er.“

Hefur aldrei heyrt slíka fyrirlitningu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, var einn þeirra sex sem voru á Klausturbarnum. Hann sagði í bréfi í vikunni að hann hefði heyrt þingmenn flestra flokka úthúða flokksfélögunu og nota grófara orðbragð en heyrist á upptökunum. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segist ekki kannast við það orðbragð sem kom fram á upptökunum. „Ég hef aldrei tekið þátt eða upplifað í þriggja tíma kerfisbundinni umræðu með slíkri mannfyrirlitningu og kvenfyrirlitningu eins og þarna virðist hafa átt sér stað.“ 

Þingmennirnir hafi augljóslega brotið trúnað við þing og þjóð og á þeim grunni þurfi þingið að fjalla um málið. „Vegna þess að þetta hefur óhjákvæmilega áhrif á störf þingsins og þingmanna í millum, hefur reyndur þegar haft í síðsutu viku, og ég hef auðvitað áhyggjur af því hvernig það mun þróast. Þess vegna þarf þingið auðvitað að koma að málinu. En fyrst og fremst snýr þetta að þessum sex einstaklingum, fimm körlum og einni konu, sem þarna voru og þau þurfa auðvitað að gera það upp við sig, gagnvart sjálfu sér, sínum umbjóðendum, kjósendum sinna flokka en líka þjóðinni og ekki síður gagnvart þeim sem þeir úthúðuðu.“

Hafa ekki beðist afsökunar

Sigurður Ingi segir að þrátt fyrir að þingmennirnir hefðu talað í fréttum um langan lista yfir fólk sem þeir þyrftu að biðja afsökunar hafi þeir ekki beðið Freyju Haraldsdóttur, Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum eða Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra afsökunar á því sem þeir sögðu um þær.  „Mér finnst það ekki undirbyggja þann trúverðugleika sem kom fram í máli þeirra.“ 

Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson þingmenn Miðflokksins eru farnir í ótímabundið leyfi frá þingstörfum vegna málsins og Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason hafa verið reknir úr Flokki fólksins en sitja áfram á þingi. Sigmundur Davíð segist ekki hafa íhugað stöðu sína og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, hefur ekki tjáð sig um sín áform. 

Hanna Katrín segir að þegar litið sé til þeirra kvenna sem þeir töluðu um á þingi og úti í samfélaginu, minnihlutahópa, sjái hún ekki að þessum mönnum sé stætt að sitja áfram á Alþingi. „En Sigurður Ingi fór hérna yfir það, við búum við það kerfi sem við búum við og það tekur enginn annar en þau sjálf ákvörðun um það, en þetta er mín skoðun.“ 

Hanna Katrín telur mikilvægt að brugðist verði við af alvöru og sanngirni gætt þannig að hvorki Alþingi sem heild eða allir karlar verði málaðir þeim litum sem sýndir hafi verið á upptökunum. „Þetta snýst ekki  um karla versus konur eða þingmenn versus þjóð. Þetta snýst um einstaklinga.“  

Hægt er að horfa á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.