Upptökurnar frá Klaustri „styðja frásögn Báru“

30.03.2019 - 11:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmenn Miðflokksins hafa fengið aðgang að upptökum úr öryggismyndavélum í Klausturmálinu svokallaða og segja að þær varpi nýju ljósi á málið. Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Báru Halldórsdóttur, segir að það eina sem hann viti um þessar upptökur sé að þær styðji frásögn Báru. Málið er enn í vinnslu hjá Persónuvernd og er þar á rannsóknarstigi, samkvæmt upplýsingum frá forstjóra stofnunarinnar.

Þingmenn Miðflokksins kvörtuðu til Persónuverndar eftir að upptöku af samtali þeirra og tveggja þáverandi þingmanna Flokks fólksins á Klausturbar var lekið til fjölmiðla. Þeir hafa nú fengið upptöku úr öryggismyndavélum af veitingastaðnum og telja að upptökurnar kollvarpi því sem haldið hafi verið fram. 

Bergþór Ólason segir í samtali við Morgunblaðið að upptakan bendi til þess að framganga Báru hafi verið undirbúin en ekki fyrir tilviljun eins og hún afi sagt. Hún hafi gengið beint til verks auk þess sem hann telji að hún hafi verið með upptökutæki auk símans.

Í grein sem birtist á vef Fréttablaðsins í morgun rekur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hvernig málið horfi nú við honum eftir að hafa fengið að sjá upptökurnar. Frásögnin af atburðarásinni sé ósönn og ljóst að þetta hafi verið skipulagður verknaður. „Niðurstaðan er sú að ein mesta persónulega aðför sem gerð hefur verið opinberlega að stjórnmálamönnum og öðru saklausu fólki í seinni tíð var skipulögð aðgerð.“

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Báru, segir í samtali við fréttastofu að það eina sem hann viti er að upptökurnar styðji frásögn Báru. „Fjórmenningarnir hafa frá upphafi sett fram kenningar um samsæri og halda því áfram - þetta er víst kallað að afvegaleiða umræðuna. Þeir vilja ekki tala um það sem þeir sögðu heldur eitthvað annað.“ Ragnar segist ekki vita hvað gerist þegar niðurstaða Persónuverndar í málinu liggi fyrir, þingmennirnir fjórir þurfi að taka afstöðu til þess hvort þeir ætli að höfða einkamál gegn Báru. „Þeir hafa alltaf gefið í skyn að þeir hafi verið að afla gagna í því skyni.“

Þingmenn Miðflokksins gagnrýndu í vikunni að Alþingi skyldi hafa birt ráðgefandi álit siðanefndar þingsins áður en þeim gafst tækifæri til að skila andmælum. Þeir gáfu jafnframt í skyn að Ríkisútvarpið hefði verið upplýst um innihald bréfsins og að það staðfesti „pólitískt eðli málsins.“ Seinna kom í ljós að álitið var birt fyrir mistök, var fjarlægt en síðan birt aftur. Siðanefndin komst að þeirri niðurstöðu að hegðun þingmannanna félli undir siðareglur þingsins og að umræða þeirra á Klaustri hefði ekki verið einkasamtal. Nefndin tók þó ekki afstöðu til þess hvort þingmennirnir hefðu brotið siðareglur Alþingis.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV