Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Uppskeran eins og sáð var til

Mynd: RÚV / RÚV

Uppskeran eins og sáð var til

16.11.2018 - 14:17

Höfundar

Garðurinn minn er plata sem Magnús Þór Sigmundsson vinnur með hljómsveitinni Árstíðum. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Það er mikill höfðingsbragur á Magnúsi Þór Sigmundssyni, mektarmanni og einum hæfileikaríkasta tónlistarmanni sem við eigum, hvað þessa plötu varðar. Ern er hann með eindæmum, þar sem hann heldur áfram sínum fallega vangadansi við tónlistargyðjuna. Meðreiðarsveinar í þetta sinnið eru liðsmenn Árstíða, en allt frá síðari hluta ársins 2016 hafa þeir félagar hist reglulega í stofunni hjá Magnúsi í Hveragerði og unnið að útgáfu nýrrar breiðskífu. Lögin eru úr smiðju Völundarins en Árstíðir aðstoða við flutning og upptökur. Vináttubönd hófu að vefjast um hópinn, eins og sjá má á kynningarefni og myndböndum, og sá andi liggur fallega yfir plötunni. Ung valmenni og aldinn höfðingi samanbundnir í ást sinni á listforminu æðsta. Eins og nærri má geta, sé litið til fagurfræðilegra áhersla Magnúsar og Árstíða, er hljómur og hantering af gamla skólanum, platan var til að mynda tekin upp beint og sungið var samtímis í einn hljóðnema. Upptökustaður var Sundlaugin í Mosfellsbæ, en lokaupptökur og hljóðblöndun fór fram í Hveragerði. Hljómborðsleikarinn Tómas Jónsson og trymbillinn Magnús Örn Magnússon spiluðu líka inn á plötuna. Aðrir tónlistarmenn sem koma við sögu á plötunni eru Matthías Hlífar Mogensen, Kristján Kristjánsson, Unnur Birna Björnsdóttir, Björn Þórarinsson og Sigurður Halldórsson - ásamt börnum Magnúsar.
 

Mörg hver

Þetta er stóreflisplata. Lögin mörg hver í kringum fimm mínútna markið, tólf alls, enda þurfti forláta, tvöfaldan vínyl fyrir þann þáttinn. Lagasmíðarnar eru allar í hæggengum, má ég segja djúpþenkjandi gír, taka sér tíma og veltast áfram í melankólísku molli. Hrjúf og veðruð rödd Magnúsar, sem er um leið svo blíð og þekkileg, leiðir þau áfram af öryggi. Magnús leyfir sér tilfinningasemi, er ástríðufullur og knýjandi. Lögin eru mikil stemningslög, „Málverk“ er til dæmis bundið í stillu, stendur nánast kyrrt, svo „ambient“-legt er það og værðarlegt. Annað er eftir þessu, Magnús tónar sögur, texta og hendingar eins og sá vitringur sem hann svo sannarlega er orðinn. Árstíðarmenn styðja við á einkar næman hátt, passa sig að vera samferða, fremur enn að stýra eða yfirgnæfa. Bakraddir liggja þannig temmilega á bak við, rödd Magnúsar ávallt snyrtilega í forgrunni (sjá „Altarið“ til dæmis).
Hreinskiptið verk frá tónlistarmanni sem hefur verið slíkur frá degi eitt. Uppskeran er nákvæmlega eins og hann hefur sáð til í gegnum tíðina, hvar heiðarleiki og sannferðugheit hafa stýrt málum. Andlegir arftakar hans sjá síðan um að skila því farsællega í höfn. Vel gert.

Með því að smella á myndina efst í færslunni má heyra viðtal Þorsteins Hreggviðssonar í Popplandi við þau Andreu Jónsdóttur og Arnar Eggert um Plötu vikunnar.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Magnús Þór og Árstíðir - Garðurinn minn