Uppsagnir hjá álverinu í Straumsvík

26.09.2012 - 15:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Nálægt fimmtán manns verður sagt upp hjá Rio Tinto Alcan sem rekur álverið í Straumsvík fyrir mánaðamót. Alls verður fækkað um 27 stöðugildi. Stefnt er að því að ná hluta þeirra fækkunar fram með því að ráða ekki í stöður sem losna og eftir öðrum leiðum en uppsögnum.

Samkvæmt upplýsingum frá Rio Tinto Alcan snerta uppsagnirnar flest svið innan fyrirtækisins en koma uppsagnirnar hlutfallslega harðast niður á hópi stjórnenda og sérfræðinga. Alls starfa um 480 manns hjá álverinu. Uppsagnirnar og fækkun stöðugilda eru sagðar til komnar vegna taprekstrar hjá fyrirtækinu.

Mikill viðsnúningur hefur orðið í rekstri álversins undanfarna mánuði. Í fyrra nam hagnaðurinn fjórum milljörðum króna en það sem af er þessu ári hefur hallareksturinn numið hálfum milljarði króna. Það er að mestu tilkomið í ágúst því þá var 25 milljóna króna tap á dag á rekstri álversins, samkvæmt upplýsingum frá Rio Tinto Alcan.

Til að mæta þessu hefur verið ákveðið að fækka stöðugildum um 27. Ekki fást nákvæmar upplýsingar um fjölda þeirra sem sagt er upp en þeir munu vera innan við fimmtán talsins. Mismuninum hyggst fyrirtækið ná með því, meðal annars, að ráða ekki í stöður sem losna. Starfsmenn álversins eru um 480 talsins. Ráðist verður í fleiri hagræðingaraðgerðir hjá fyrirtækinu, til dæmis verður fé sem ætlað var til að endurnýja búnað skorið niður um rúman milljarð samanlagt á þessu ári og því næsta.

Í hittifyrra var ráðist í 57 milljarða króna fjárfestingaverkefni í álverinu í Straumsvík sem á að standa fram til ársins 2014. Niðurskurðurinn í rekstri álversins nú hefur ekki áhrif á þær framkvæmdir, enda er fjárfestingaverkefnið rekið til hliðar við daglegan rekstur fyrirtækisins.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi