Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Uppsagnir HB Granda „sárar og erfiðar“

12.05.2017 - 12:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þetta er sárt og erfitt hvar og hvenær sem þetta gerist,“ segir Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um uppsagnir hjá HB Granda. Fréttastofa náði tali af honum að loknum ríkisstjórnarfundi rétt fyrir hádegið. 86 starfsmenn bolfiskvinnslu HB Granda á Akranesi fá uppsagnarbréf um mánaðamótin. Greint var frá því í fréttum í gær að viðræður Akraneskaupstaðar við fyrirtækið um að halda vinnslunni í bænum báru ekki árangur.

Starfsmönnunum verði boðið að sækja um vinnu hjá HB Granda í Reykjavík og á Akranesi. Jón vonast til þess að yfirvöld á Akranesi geti stuðlað að því að efla stöðu Akraness gagnvart sjávarútvegi. „Þó atvinnuástandið sé gott í landinu þá er þetta sérhæft fólk sem hefur byggt upp mannauð á þessu sviði.“

Vika er síðan aðalfundur HB Granda samþykkti að greiða 1,8 milljarða króna í arð til hluthafa, eða eina krónu á hvern hlut í félaginu. Formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði í fréttum í gær að HB Grandi bæri samfélagslega ábyrgð. Finnst ráðherra uppsagnirnar í samræmi við samfélagslega ábyrgð?

„Öll fyrirtæki í sjálfu sér bera samfélagslega ábyrgð og auðvitað bera ákveðna skyldur og ábyrgð gagnvart sínu starfsfólki. Ég er alveg sannfærður um það að þetta er ekki gert með góðum huga eða slíku hjá HB Granda. Við vitum að aðstæður í dag eru útflutningsgreinum okkar mjög erfiðar, þ.e.a.s. staða gjaldmiðilsins hefur veikt stöðu þeirra mjög mikið og fyrirtækin leita allra leiða til þess að hagræða. Þetta hefur komið fram í fleiri atvinnugreinum en sjávarútvegi og þarna hafa þeir tækifæri til að gera það í sínum rekstri. Þetta er umsvifamikið sjávarútvegsfyrirtæki sem vissulega greiðir einhvern arð til sinna eigenda. Ég held að hann hafi ekki verið óhóflega mikill miðað við þá miklu fjármuni sem eigendurnir binda í þessum rekstri. Það er auðvitað ljóst ef fyrirtæki almennt greiða ekki eigendum sínum einhvers konar arð af fjárfestingunum sem farið er í, þá er til lítils að fjárfesta. En þetta er bara hluti af þessu stóra máli, með þessa samfélagslegu ábyrgð í atvinnulífinu almennt. Ég er á þeirri skoðun að vitund atvinnulífsins, fyrirtækjanna almennt, hafi vaxið mjög á undanförnum árum í þessa átt og við sjáum að aðstæður almennt hjá starfsfólki hafa sem betur fer mikið batnað á síðustu árum,“ segir Jón.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var ekki á ríkisstjórnarfundi í morgun. Hún segir í samtali við Fréttablaðið í dag að eðlilegt sé að sjávarútvegsfyrirtæki hagræði í rekstri sínum en að hagræðing verði að fara saman við kröfuna um byggðafestu og atvinnuöryggi. Það sé ekki gert með því að flytja störfin til Reykjavíkur.