Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Uppreisnarmenn sakaðir um stríðsglæpi

03.11.2015 - 12:28
epa03619932 A photograph made available on 12 March 2013, shows free Syrian Army fighters preparing themselves to shoot against Syrian Army positions in the Old City of Aleppo, Syria, 11 March 2013. According to local media sources, more than 35
Sýrlenskir uppreisnarmenn. Mynd: EPA
Mannréttindasamtökin Human Rights Watch saka uppreisnarmenn í Sýrlandi um stríðsglæpi með því að nota fanga sem mannlega skildi. Rússar reyna nú að koma á friðarviðræðum milli uppreisnarmanna og sýrlenskra stjórnvalda.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á fund með Staffan de Mistura, sendimanni Sýrlandsstjórnar hjá Sameinuðu þjóðunum á morgun. Tilgangur fundarins er að koma á samningaviðræðum í Moskvu í næstu viku milli stjórnvalda í Damaskus og hópa uppreisnarmanna.

Fulltrúar 19 þjóða sem hittust í Vín um síðustu helgi hafa beðið Sameinuðu þjóðirnar um að hafa forystu um friðarsamninga til að stöðva borgarstríðið í Sýrlandi, undirbúa nýja sýrlenska stjórnarskrá og boða til þingkosninga.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch sökuðu í morgun sýrlenska uppreisnarmenn um stríðsglæpi eftir að þeir birtu myndbönd af gíslum, þar á meðal stjórnarhermönnum og almennum borgurum, í búrum sem stillt hafði verið upp á torgum og öðrum stöðum nærri höfuðborginni Damaskus til að koma í veg fyrir sprengjuárásir stjórnarhersins.

Þá hefur sýrlenskur fréttamaður verið drepinn og nokkrir aðrir særðir í bardögum sem standa í nágrenni höfðborgarinnar. 48 fréttamenn hafa verið drepnir frá því átökin hófust 2011, þar af margir sem vígamenn hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins hafa tekið af lífi.

 

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV