Uppnám á Alþingi vegna makrílfrumvarps

16.06.2015 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Mikið uppnám er á Alþingi vegna afgreiðslu mála eftir breytingartillögu um að makríll verði kvótasettur og framsal bannað til næstu þriggja ára. „Óásættanleg vinnubrögð,“ segir þingmaður Vinstri grænna og þingflokksformaður Pírata segir ljóst að samskiptaleysi innan stjórnarflokkanna sé mikið.

Breytingartillaga við makrílfrumvarp sjávarútvegsráðherra virðist hafa komið vinnu um þinglok í mikið uppnám og þingmaður Vinstri grænna segir tillöguna vera stórt skref inn í núverandi kvótakerfi.

Uppnám á Alþingi varðandi framhaldið
Á Alþingi töldu formenn og þingflokksformenn sig hafa færst nokkuð nálægt samkomulagi um afgreiðslu mála. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að samþykkt hafi verið að afgreiða rammaáætlun án breytingartillagna meirihlutans um fjölgun virkjana í nýtingarflokki. Ekki mun margt hafa staðið út af þar til í morgun að breytingartillagan um makrílfrumvarpið var lögð fram.

„Breytingartillagan sem var lögð fram í morgun í atvinnuveganefnd er stórt skref inn í núverandi kvótakerfi, eitthvað aðeins trappað niður í árum frá því sem áætlað var í frumvarpinu, en er óásættanlegt,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri Grænna. „Við töldum okkur, í stjórnarandstöðunni, vera komin með samkomulag um að makrílnum yrði úthlutað með óbreyttum hætti næsta ár.“ 

„Þetta slær mig eins og samskiptaleysi innan Framsóknarflokksins eða milli stjórnarflokkanna,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata. „Þeir virðast ekki tala mikið saman um hvað sé í gangi hérna, hvernig þessu eigi að ljúka. Þetta er náttúrulega vond tímasetning, á svona uppákomu.“

Þingfundi var ítrekað frestað og óljóst er hvenær hann hefst. Enginn fundur er á morgun, 17. júní og á föstudag, 19. júní, er hátíðarþingfundur í tilefni hundrað ára afmælis kosningaréttar kvenna.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Katrín Johnson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi