Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Upplausn alheimsins

Mynd: RÚV_mynd / Rúv

Upplausn alheimsins

14.06.2018 - 15:55

Höfundar

Á sýningunni Upplausn í Hverifsgalleríi renna stafræn veröld, alheimurinn og mannleg reynsla saman. Hrafnkell Sigurðsson á verkin á sýningunni en í þeim leitar myndlistarmaðurinn inn í tómið af efni sem alls staðar leynist.

Á dökkum myndum Hrafnkells á sýningunni fer áhorfandinn strax að hugsa langt út í geim. Myndlistarmaðurinn segir þetta skiljanlegt enda komið myndefnið þaðan.

„Sagan á bak við þetta er að ég vinn með einn mynddíl (e. pixel) sem ég sæki í ljósmynd af alheiminum. Alveg og vísindamennirnir beindu myndavélum Hubble sjónaukans að svörtu gati á himninum þar sem þeir héldu að ekkert væri, vinn ég mínar myndir upp úr svörtum díl úr slíkri mynd,“ segir Hrafnkell í samtali við Víðsjá. „Ég vel pínulítið svart svæði á milli vetrarbrautanna og stækka það upp til að vinna myndir með mínum aðferðum. Þannig fer ég lengra aftur í tímann en Hubble náði,“ segir Hrafnkell og bætir við að hvern blett myndarinnar vinn hann síðan áfram í tölvuforriti.

„Ég myndi segja að þetta sé könnunarleiðangur, ævintýri og ferðalag sem er kannski orðið að rannsóknarefni,“ segir Hrafnkell.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV_mynd - Rúv
Með því að láta myndirnar flæða út á veggina, með þrykki, vill Hrafnkell fá hreyfingu í rýmið.

Heimar renna saman

Alls konar hugrenningar kvikna á þessari sýningu. Ein myndin minnir á refeindavirkjun, önnur á mosa en allar spretta þær af tómi sem ekki er til. „Þessir heimar renna saman í eitt. Hinn óendanlega stóri alheimur, tómið, víðáttan, tíminn, heimur rafeindanna og okkar innri heimur. Mér finnst heillandi þessi afstaða að vera að vinna í myndvinnsluforriti í tölvu og vera samt að tengja við náttúruna,“ segir Hrafnkell sem ferðaðist í huganum aftur í æsku sína við vinnslumyndanna, tengdist jafnvel hrauninu á Þingvöllum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV_mynd - Rúv
Fyrir framan myndvinnsluforrit í tölvu tengdist Hrafnkell náttúrunni.

Rafaugað stoppaði allt

Ein myndin á sýningunni, sú sem sést hér efst á mynd með listamanninum, sker sig úr. Þar horfum við eins og inn í einhvers konar bleika þrívídd sem þó er í alls konar litum, nema ekki í svörtum.

„Þessi mynd er öðruvísi af því ég vel svarta litinn í henni og eyði honum út. Þannig sigra ég myrkrið. Þetta er eins konar techno-expressionismi en ég setti mér það markmið að fara eins langt og ég kæmist en síðan aðeins lengra. Ég var búinn að vera að vinna í þessari mynd í lengri tíma og eitt kvöldið, þegar ég var að vinna í miðri myndinni, þá sá  í henni auga sem starði á mig. Það var mjög raunverulegt og lifandi. Ég hrökk við og hugsaði að það væri örugglega eitthvað í þessari mynd. Morguninn eftir var eins og eitthvað stöðvaði mig þegar ég ætlaði að halda áfram að vinna í myndinni. Myndin var tilbúin.“

Viðtalið við Hrafnkel Sigurðsson um sýninguna Upplausn í Hverfisgalleríi má heyra hér að ofan.

Tengdar fréttir

Myndlist

Ótrúlegt hvað hægt er að breyta landi mikið

Myndlist

Safneignir eiga sér ýmsar hliðar

Myndlist

Styttur sem stóðu af sér tímann

Myndlist

Ég er ekki fræðimaður, ég vinn á innsæinu