Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Upphafið að ferlinum eitt stórt slys

Mynd: Geirix / Pressphotos.biz

Upphafið að ferlinum eitt stórt slys

26.06.2017 - 18:10

Höfundar

„Ég ætlaði alltaf að verða fótboltamaður en stundum er maður ekki nógu góður,“ segir poppstjarnan Friðrik Dór. Hann lagði tvítugur skóna á hilluna, gaf út fyrsta lagið sitt og þá var ekki aftur snúið.

„Við vorum að semja söngleik á þessum tíma, ég og nokkrir vinir. Ætluðum að gera það fyrir Verzlunarskólann og reyna að selja þeim söngleikinn, og fyrir það samdi ég þetta lag, „Hlið við hlið“, sem ég gaf út í september 2009. Svo náttúrulega varð ekkert úr þessum söngleik og þá prófaði ég að gefa það út og það gekk bara vel. Það var upphafið, þetta var eitt stórslys.“

Hefði sokkið í fen án aðstoðar

Í Verzlunarskólanum fékk Friðrik tækifæri til að vinna með tónlistarmanninum Jóni Ólafssyni, sem var þar tónlistarstjóri. „Það var mjög gaman að fá að vinna þar með Jóni Ólafssyni, fara í alvöru stúdíó og svona og fá pepp fyrir sönginn.  Alltaf mikilvægt að fá pepp, muna það.“

Friðrik segist þó hafa byrjað að semja lög mun fyrr, eða um fermingaraldur þegar bróðir hans Jón Jónsson kenndi honum á gítar. Hann segist yfirleitt semja lögin fyrst í einrúmi, með því að plokka laglínur á gítar. Ef það gengur ekki þá hringir hann í bróður sinn. Hann segist einnig eiga framleiðendateymunum Stop Wait Go og Red Lights mikið að þakka. Án þeirra hefði hann orðið að sveitaballapoppara.

Friðrik Dór og Jón Jónsson taka lagið á Einelti er ógeð.
 Mynd: Einelti er ógeð - RÚV
Bræðurnir, Jón Jónsson og Friðrik Dór, taka lagið saman.

„Þeir eru svona meira afsprengi þess sem ég var að tala um áðan, gaurar sem sökktu sér ofan í þessar græjur allar og fóru að gera og græja heima hjá sér og komu svona með það inn í mitt,“ segir Friðrik. „Ef ég hefði ekki fengið þessa aðstoð þá hefði ég sokkið í fenið.“

Býr sig undir stóra sviðið í Hörpu

Friðrik segist hafa þroskast mikið á undanförnum árum og þakkar það helst föðurhlutverkinu. „Maður er alltaf að reyna að þroskast, það gengur ágætlega. Eftir að ég varð faðir þá hef ég þroskast mikið. Hún er þarna dóttir mín að þroskast með mér – við þroskumst saman.“

Friðrik er þessa dagana að búa sig undir tónleika í Eldborgarsal Hörpu, sem haldnir verða 9. september. Þar kemur hann fram ásamt 12 manna hljómsveit og óhætt að setja að umgjörðin verði önnur og stærri en hann á að venjast.

„Maður er að setja sig í stellingar fyrir Hörpu, án þess að maður ætli að umturna öllu til að þóknast henni og stemmningunni þar. Það er gaman að fara í betri fötin og útsetja lögin fyrir stærri hljómsveit og stærra svið. Ég er ánægður með að vera að þroskast aðeins. Og áheyrendahópurinn er að þroskast líka. Við erum öll saman á þessari ferð og það er svo skemmtilegt.“

Friðrik Dór var föstudagsgestur Síðdegisútvarpsins á Rás 2, þar sem hann ræddi vítt og breitt um tónlistarferilinn.