Upphafið að endalokum ríkisstjórnarinnar

12.03.2015 - 18:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að aðildarviðræður við Evrópusambandið verði ekki hafnar á ný og að Ísland sé ekki lengur í hópi umsóknarríkja á eftir að vekja alvarleg viðbrögð í þinginu, segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. „Þetta er upphafið að endalokum þessarar ríkisstjórnar."

 

Segir ríkisstjórnina aftengja þingræðið
„Ég er eiginlega í áfalli, því alveg óháð því hvað þetta er þá er þetta risastórt mál sem ríkisstjórnin ákveður að gera án nokkurs samráðs og aftengja þingræðið. Það er skylda að bera öll meiriháttar utanríkismál undir utanríkisnefnd. Það gerðu þeir ekki," segir Birgitta. Hún segir að ef ríkisstjórninni sé stætt á því að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið með þessum hætti þá séu allir alþjóðasamningar sem Íslendingar hafi samþykkt með þingsályktun í uppnámi.

Birgitta segist ekki átta sig á því hvort ríkisstjórnin hafi vald til að gera þetta eða ekki. „Gunnar Bragi er búinn að afhenda þetta bréf. Svo er að sjá hver eftirmálin verða."

Hefði verið betra að hafa óbreytta stöðu
Stjórnarliðar hafa fyrr á kjörtímabilinu vísað til þess að ekkert hafi gerst í aðildarviðræðum við Evrópusambandið síðan hlé var gert á viðræðum fyrir síðustu þingkosningar. Aðspurð hvort aðgerðir ríkisstjórnarinnar geti talist rökrétt næsta skref eftir þá þróun segist Birgitta svo ekki vera. „Í fyrsta lagi vill þjóðin fá að sjá þessu ferli lokið. Þjóðin vill fá að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um það." Birgitta segir að þetta hafi ríkisstjórnin ekki þorað að gera. Hún vísar til þess að miklu fé hafi verið varið í aðildarviðræður og mikill mannafli notaður í verkið. Að auki hafi Íslendingar fengið mikla styrki til að laga innviði þjóðféllagsins. „Ætlum við þá að skila því? Mér finnst það."

Birgitta segir að skynsamlegast hefði verið að hafa stöðuna óbreytta frekar en að slíta viðræðum. „Það hefði ekki verið neinum til harms eða skaða."

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi