Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Uppgangur á Grenivík

10.06.2013 - 19:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Íbúum í Grýtubakkahreppi hefur fjölgað um tíu prósent á tveimur árum. Sveitarstjórinn segir að sveitarfélagið neyðist til að standa eitt fyrir því að byggja upp húsnæði. Einstaklingar veigri sér við því þar sem byggingarkostnaður er hár og markaðsverð lágt.

Í ársbyrjun 2011 voru íbúar Grýtabakkahrepps 334 - nú eru þeir orðnir 370. Það er mikil fjölgun í ekki stærra sveitarfélagi. Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri Grýtubakkahrepps segir að uppgangi í sjávarútvegi og nálægð við þjónustu á Akureyri sé að þakka fjölgunina - að þessu hafi lengi verið unnið. Uppgangur efli andann í bænum, til dæmis ætli einstaklingar og fyrirtæki að hafa opin hús og bjóða til sín gestum sunnudaginn 18. júní næskomandi fyrir þá sem vilji kynna sér frekar það sem sveitarfélagið hafi upp á að bjóða.

Guðný segir að fólksfjölgunin reyni hins vegar á innviðina, nýverið hafi verið byggt við leikskólann og nú sé helsta vandamálið húsnæðisskortur. Sveitarfélagið brá á það ráð að byggja parhús, en í því er hins vegar bara pláss fyrir tvær fjölskyldur - fleiri vilji komast að.

Að hennar sögn hefur smæð bæjarins haft letjandi áhrif á húsnæðiskaupendur. „Við erum aðeins að líta í kringum okkur og athuga hvort hægt sé að útbúa litlar íbúðir á fleiri stöðum. Ég veit ekki alveg hvað verður, en skortur á húsnæði hefur verið okkar Akkilesarhæll,“ segir Guðný. „Fólk veigrar sér við að byggja hérna á Grenivík því um leið og það er búið að byggja og flytur inn lækkar verðið um 20%, 30%. Þetta gerir það að verkum að fólk byggir síður,“ segir Guðný.

„Þess vegna sér sveitarfélagið um þetta, okkur er eiginlega nauðugur einn sá kostur að byggja sjálf. En þetta er auðvitað vond staða fyrir lítil sveitarfélög. Ég hef rætt þetta við Byggðastofnun, að sveitarfélögin og stofnunin taki höndum saman og reyni að finna út úr þessu. Svo sveitarfélögin þurfi ekki að standa ein,“ segir Guðný.