Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Uppblásið land losar kolefni í andrúmsloftið

05.04.2019 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV/Landinn
Landgræðslustjóri vonar að ný lög verði til þess að stöðva ósjálfbæra landnýtingu og beit illa förnum afréttum og að í staðinn komi beitarhólf. Uppblásið land losi kolefni í andrúmsloftið og stuðli að loftslagsbreytingum þar til því sé lokað með uppgræðslu.

Í nýjum landgræðslulögum er kveðið á um sjálfbæra landnýtingu og þarf ráðherra að skilgreina í reglugerð hvað teljist sjálfbær landnýting. Árni Bragason landgræðslustjóri segir að önnur lönd hafi skilgreint hana þannig að landinu hnigni ekki, eyðing jarðvegs sé stöðvuð, hann tapi ekki kolefni út í andrúmsloftið og fleira. Hann segir að reglugerðin verði verkfæri til að útkljá hvort beit sauðfjár á ákveðnum svæðum er í raun sjálfbær.

Að hans mati er beit á sumum afréttarlöndum ósjálfbær því samkvæmt gróðurúttektum sé innan við fimmtungur svæðisins beitarhæfur. „Auðvitað er ekki búið að setja þessa reglugerð en þetta er eitt af því sem menn verða á taka á. Við erum að tala um mjög alvarlegt mál því að við erum að tapa fastbundnu kolefni úr jarðvegi. Það er að blása upp á mörgum þessara svæða og þetta er með stærstu losunarþáttum í losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Ásamt því sem er að tapast frá framræstu votlendi,“ segir Árni en hann hélt erindi á fagráðstefnu Skógræktarinnar sem fram fór á Hallormsstað dagana 3. og 4. apríl. 

Þegar jarðvegur rofnar og fýkur burt oxast hann og um helmingur lífræns efnis losnar úr jarðveginum sem koltvísýringur. Mest kolefni tapast frá illa förnu beitilandi þar sem jarðvegur er enn til staðar. Hann segir að þetta eigi fyrst og fremst við um afréttarlönd á gosbeltinu. Beit og landgræðsla geti farið saman en árangurinn verði betri ef land er friðað. „Við höfum nóg af góðu beitilandi á Íslandi. Féð er ekki að ganga á réttum stöðum. Við getum sagt að kannski 85% af framleiðslunni er á ágætis landi en þessi 15% sem eru þá risastór svæði í mörgum tilvikum; það er engan veginn hægt að telja þessa nýtingu sjálfbæra. Það er spurning hvenær menn ætla að stíga það skref að stöðva þessa nýtingu. Það yrði bara hreinlega komið upp sameiginlegum beitarhólfum þar sem land er gott og þolir beit. Ég get vel ímyndað mér að í náinni framtíð þá muni Landgræðslan aðstoða menn við að bæta það land sem verður þá beitt til þess að geta þá létt beit af þessu handónýta landi. Illa farið land er jú að losa mikið kolefni,“ segir Árni Bragason landgræðslustjóri.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV