Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Unnur Brá: „Hægt að fá fleiri flóttamenn“

30.08.2015 - 14:11
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, telur að hægt sé að taka á móti fleiri flóttamönnum en þeim fimmtíu sem búið er að ákveða að taka á móti. Nefndin mun taka málið fyrir fljótlega.

 

 

Unnur segir flóttamannavandinn sé stór og þjóðir heims verði að sameinast um að gera allt sem þær geta til að leysa það. „Við þurfum auðvitað að leggja okkar af mörkum þar eins og aðrir, og ég tel að við eigum að gera meira.“

Unnur Brá vill þó ekki segja nákvæmlega hversu mikið meira eigi að gera. Það fari eftir því hvaða þjónustu hægt sé að bjóða upp á. Reynslan bæði hér heima og erlendis sýni að móttaka flóttamanna krefjist töluverðar þjónustu. Byggja þurfi á þeirri reynslu, fara yfir málið og skoða hvað við getum gert mikið.

Fulltrúi Vinstri grænna í allsherjar- og menntamálanefnd óskaði í gær eftir því að málefni flóttamanna yrðu rædd þar. Unnur Brá segir að það verði gert. „Við höfum auðvitað líka verið að endurskoða útlendingalögin í þingmannanefndinni og sú vinna liggur nú fyrir til umsagnar á netinu. Þar er verið að fara yfir lagarammann. Þannig að þetta hefur verið í vinnslu og undirbúningi á undanförnum misseerum, enda hefur það legið fyrir lengi að þetta væri verkefni sem við þyrftum að sinna.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV