Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Unnið úr mikilvægum ábendingum hjá OR

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Orkuveita Reykjavíkur (OR) vinnur nú úr mikilvægum ábendingum sem koma fram í úttekt innri endurskoðunar Reykjavíkur á vinnustaðamenningu fyrirtækisins. Í dag var haldin vinnufundur alls starfsfólks innan samstæðu Orkuveitunnar í því skyni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá OR sem barst í kvöld.

Úttektin á vinnustaðamenningu OR var kynnt í borgarráði í dag og í kjölfarið tjáðu borgarfulltrúar sig um mál Orkuveitunnar. Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur, sagði í samtali við fréttastofu RÚV í dag að skoða þurfi áfram ábendingar um brotalamir innan Orkuveitunnar sem komið hafi fram í skýrslu Innri endurskoðunar. Hún segir að fólk hafi upplifað þöggun þegar hluti skýrslunnar var ekki gerður opinber.

Í fréttatilkynningunni segir að jafnvel þó að erfitt sé að nálgast samanburðartölur um starfsmannaveltu á íslenskum vinnumarkaði, þá sé starfsmannavelta hjá OR ekki óvenjulega mikil.  Vísað er í niðurstöðu rannsóknar Félagsvísindastofunnar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir innri endurskoðun um vinnustaðamenningu hjá Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem kemur fram að almennt sé starfsfólk OR ánægt í starfi og hollustan við fyrirtækið mikil.

Með vísan í rannsóknina segir í fréttatilkynningunni: „Starfsfólk upplifir stuðning frá samstarfsfólki sínu og yfirmönnum og telur starfsanda góðan. Flestir telja sig hafa mikinn sveigjanleika í starfi og tekst vel að samhæfa starf og fjölskylduábyrgð. Starfsmenn OR eru jafnframt nokkuð ánægðir með yfirmenn sína og telja þá koma vel fram við starfsfólk. Fimm af hverjum sex starfsmönnum OR bera mikið traust til framkvæmdastjóra síns fyrirtækis eða sviðs, en heldur lægra hlutfall ber traust til æðstu stjórnenda OR samstæðunnar.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist ánægður með hvað starfsmannamál Orkuveitunnar hafa verið tekin föstum tökum. „Ég er ánægður með hvað þetta hefur verið tekið föstum tökum. Það er kannski tákn nýrra tíma þegar svona mál koma upp að þá er brugðist við þeim og þau eru tekin út og starfandi forstjóri yfirgaf fundinn til þess að fara beint á vinnustofu með öllu starfsfólki OR til þess að vinna að nauðsynlegum úrbótum.“