Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Unnið að reglum um arsenik í hrísgrjónum

02.03.2015 - 22:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Einhæft fæði eins og hrísgrjónaafurðir auka arsenik í líkama barna og því þarf að hafa þau á fjölbreyttu fæði, segir Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Evrópska matvælaöryggisstofnunin vinnur nú að reglum um að takmarka arsenik í hrísgrjónum.

Í rannsókn sem sænska sjónvarpið gerði kom í ljós að efnið arsenik, sem getur valdið krabbameini, er í hrísgrjónum og mat sem inniheldur þau, til dæmis hrískökur og morgunkornin Rice Crispies og Cocoa Pops. Þórhallur segir að vitað sé að mismikið sé af arseniki í hrísgrjónaafurðum eftir því hvaðan þær koma. „Vandamálið sem þetta snýst aðallega um eru ungbörn. Það er vitað að þau borða meira og tiltölulega einhæfari fæðu en fullorðnir og þau eru að vaxa. Þannig að börn á aldrinum 0-3 ára fara gjarnan yfir efri mörk fyrir arsenik og fjölmörg önnur efni á þessum tíma.“

Þórhallur mælir ekki með því að hætta að láta börn borða mat úr hrísgrjónum. „Hins vegar þurfa sum börn sem eru með mjólkuróþol að fá kalk einhvers staðar og þá getur maður farið á breytilegra fæði en vera með kalkbætta hrísmjólk, menn geta farið í sojamjólk og haframjólk sem hefur verið kalkbætt.“

Til að minnka arsenik í hrísgrjónum hefur fólki verið ráðlagt að skola þau áður en þau eru soðin. En dugar það til? „Nei. Þá ertu kominn út í þetta sem einhver les á netinu og einhver lækar við á Facebook. Það er nær ómögulegt að fylgja þessu eftir.“

Þórhallur hvetur fólk til að vera meðvitað og bjóða börnum upp á fjölbreytta fæðu. Og það er unnið að því að draga úr arseniki í fæðu. „Evrópska matvælaöryggisstofnunin er að fara að setja reglur sem takmarka hámarksmagn af arseni í hrísgrjónaafurðum þannig að allar þessar fréttir og allar þessar rannsóknir verða til þess að kerfið breytir sér og reynir að minnka þessar líkur, þannig að það er það sem neytendur þurfa að kalla eftir, að þær breytingar séu hraðari.“