Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Unnið að félagslegum jöfnuði í Breiðholti

03.11.2016 - 22:20
Séð yfir Reykjavík eftir Bústaðavegi. Breiðholt í fjarska.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Mikið þverfaglegt starf fer fram í Breiðholti til að auka félagslegan jöfnuð og aðstoða innflytjendur við að aðlagast íslensku samfélagi, segir Nichole Leigh Mosty leikskólastjóri og formaður hverfisráðs.

 

Skýrsla sem Rauði krossinn lét gera um aðstæður þeirra borgarbúa sem verst standa félagslega og fjárhagslega hefur vakið mikla athygli, ekki síst að hundruð barna alist upp til varanlegrar fátæktar. Í skýrslunni kemur fram að ástandið er verst í Efra-Breiðholti.  

Nichole Leigh Mosty formaður hverfisráðs Breiðholts, sem jafnframt er leikskólastjóri í leikskólanum Ösp við Iðufell, telur að of dökk mynd sé dregin upp af ástandinu í hverfinu. Mjög margt sé gert til að bæta ástandið. Í Fellahverfi sé unnið að fimm ára verkefni í að brúa bil á milli skóla og auka félagslegan jöfnuð, unnið sé með foreldrum til að efla tengsl við þá. Einnig komi tannlæknir í leikskólann Ösp og skoði börnin ókeypis og ef börnin þurfa að fara í stærri aðgerðir er foreldrum hjálpað að  leita eftir aðstoð í kerfinu. Þá segir Nichole að þeir sem þarna starfa hafi verið duglegir við að kynna sér hvernig fjölskyldumiðstöðvar eru reknar annars staðar á Norðurlöndunum og  í Bretlandi, sem dæmi. Reykjavíkurborg hafi lagt línur um þverfaglega samvinnu og margir leggist á árarnar til að bæta samfélagið.

„Íþróttafélögin hafa lækkað sín gjöld og kynningar fara fram innan skólanna. Leikskólabörn vinna með íþróttafélögum í hverfinu. Við erum öll að reyna að finna einhvern flöt til að vinna saman og ná betur utan um okkar fólk, sérstaklega innflytjendurna. Það er allt önnur menning og kerfi og þess háttar þaðan sem þau koma og þurfa kannski aðstoð við að kynnast hvernig hlutirnir ganga fyrir sig hér,“ segir Nichole Leigh Mosty leikskólastjóri, formaður hverfisráðs og verðandi þingmaður.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV