Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ungum mönnum bjargað úr prísund í Nígeríu

15.10.2019 - 04:32
Ryðguð keðja.
 Mynd: Gesine Kuhlmann - RGBStock
Yfir 300 ungir karlmenn voru leystir úr prísund í skóla í Nígeríu í gær. Þeir voru hafðir í hlekkjum í skólanum og brotið var kynferðislega á þeim. Lögregla fór inn í skólahúsnæði í Daura í Katsina héraði eftir að nokkrir nemendur sluppu úr vistinni. Skólinn var heimavistarskóli, undir þeim formerkjum að þar væru kenndar kenningar íslamstrúar. 

Sanusi Buba, lögreglustjóri Katsina héraðs, tjáði fjölmiðlum í gær að skólinn hafi verið stofnaður af múslimaklerknum Bello Mai Almajirai fyrir fjörutíu árum. Sonur hans tók svo við stjórnvelinum fyrir nokkru. Að sögn Buba tók skólinn við drengjum víðs vegar að úr landinu sem áttu við fíknivanda og annars konar vandamál að stríða. 

Lögreglan vinnur nú að því að bera kennsl á ungu mennina, svo hægt verði að hafa samband við fjölskyldur þeirra. Eins lofaði Buba að kennarar og stjórnendur skólans verði handteknir. Þeir náðu að flýja þegar lögreglan fór inn í skólann til að bjarga ungu mönnunum.

Aðeins nokkrar vikur eru síðan rúmlega þrjú hundruð drengjum og ungum mönnum var bjargað úr svipuðum aðstæðum í nágrannahéraðinu Kaduna. Þeir voru einnig í heimavist þar sem þeir voru hlekkjaðir, pyntaðir og misnotaðir. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV