Ungt fólk og fjárlögin

Mynd: Rúv / Bjarni Benediktsson

Ungt fólk og fjárlögin

14.09.2018 - 15:41
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, mætti í Núllið og talaði um nýju fjárlögin og þá sérstaklega þá þætti sem skipta máli fyrir ungt fólk. Hér verður stiklað á stóru um efni viðtalsins.

Til að hægt sé að eyða peningum ríkisins þarf að fylgja lögum. Fyrst eru þau kynnt sem fjárlagafrumvarp og eftir ýmsar breytingar á leiðinni er frumvarpið samþykkt á Alþingi og verður þá að fjárlögum. Fjárlögin gefa yfirlit yfir hvað ríkið á mikinn pening og greina frá því hversu miklu verður eytt og í hvað.

Reynt að styrkja stöðu þeirra lægst launuðu

Bjarni segir að í skatta- og bótamálum sé verið að teygja sig til þeirra sem eru neðar í launastiganum. Samkvæmt fjárlögunum hækka til dæmis barnabætur. Einstætt foreldri getur fengið um 100 þúsund krónum meira en hefur verið og pör frá 100 til 180 þúsund krónum meira. Persónuafslátturinn, afsláttur sem fólk fær af skatti, hækkar um 2.000 krónur á mánuði. Bjarni segir að það komi þeim betur hlutfallslega sem hafa lægri laun en þessi aukning er ekki kynnt sem mikil skattalækkun heldur er verið að fylgja lögum um að persónuafsláttur eigi að hækka í takt við breytingu á neysluverði og aukaprósentu er svo bætt ofan á þá hækkun.

Dýrt að leigja og kaupa húsnæði

Bjarni tekur undir að það sé bæði dýrt að leigja og kaupa húsnæði. Húsnæðismarkaðurinn ræðst af framboði og eftirspurn en undanfarið hefur verið skortur á framboði. Ástæðan fyrir því er meðal annars sú að ekki hefur verið byggt nógu mikið og stór hluti íbúða sem ungt fólk gæti leigt eða keypt, er í notkun ferðamanna, með Airbnb. Bjarni trúir því að toppnum hafi verið náð hvað varðar hátt verð og vonar að það verði auðveldara fyrir fólk að kaupa á næstu árum. Ríkið hefur gert ýmislegt til að auðvelda fólki fyrstu fasteignakaup, til dæmis með lögum um séreignarsparnað sem þarf ekki að borga skatt af, styrkjum og bótum og að nú standi til að afnema stimpilgjaldið við kaup á fyrstu fasteign, sem er gjald sem sá sem kaupir húsnæði þarf að borga ríkinu.

Munur á launum á Íslandi minni en annars staðar

Bjarni segir að það skipti líka máli að halda stöðugu verðlagi í landinu, þ.e. að verð hækki ekki of mikið of hratt og að ungt fólk geti fengið sæmileg laun. Margt ungt fólk er í láglaunastörfum en Bjarni bendir á að á Íslandi sé munur á launum minni en í mörgum öðrum löndum og að samkvæmt nýjustu tölum sé munurinn að minnka. Hann vill sjá samkomulag um hækkun launa, til dæmis laun fyrir ákveðna menntun, gerast með samningum á opinberum markaði.

Ættu að hafa efni á að styðja við menntamál í landinu

Bjarni segir að ytri skilyrði á Íslandi ættu að vera til staðar til að standast erlendan samanburð í menntamálum og miklu fjármagni hefur verið bætt við háskólastigið. Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er stefnt að því að fjármögnun háskólastigsins á Íslandi nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 og meðaltali Norðurlanda árið 2025. Til að ná meðaltali OECD-ríkjanna þyrfti háskólastigið að fá 3 milljarða á næstu tveimur árum en samkæmt frumvarpinu er aukningin fyrir næsta ár 705 milljónir, en ekki 1,5 milljarðar. Gert er ráð fyrir 2,7 milljörðum samtals til ársins 2023 en til að ná meðaltali Norðurlanda þyrfti tveggja milljarða aukningu á ári. Bjarni segir að meðaltal OECD-ríkjanna sé ekki stöðug tala og því markmiðið óljóst og að nálgast þurfi samanburð við Norðurlöndin á sanngjarnari hátt. Víða á Norðurlöndum eru miklar aðgangshindranir en á Íslandi hafa háskólar verið fremur opnir, fyrir utan nokkur fög. Engin ákvörðun hefur verið tekin um aðgangstakmarkanir en stefnan í menntamálum verður mótuð í menntamálaráðuneytinu.

Skemmtilegir dagar

Bjarni segir að haustið sé skemmtilegt en þá koma þingmenn saman aftur, rétt eins og nemendur í skólum. Á þessum dögum er létt yfir hópnum og gaman að vera þingmaður en svo komi af og til dagar þegar starfið er ekki jafn skemmtilegt.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.