Ungt fólk hrekst úr landi

20.02.2015 - 18:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Ástandið í húsnæðismálum á Íslandi veldur því að ungt fólk í námi erlendis hugsar sig tvisvar um áður en það ákveður að flytja heim að námi loknu. Og margt ungt fólk sem lýkur námi á Íslandi íhugar alvarlega að leita eftir atvinnu erlendis. Þetta segir Baldur Ólafsson formaður SÍNE.

Spegillinn fjallaði í vikunni um þá spennitreyju sem ungt fólk lendir í þegar það lýkur námi með skuldaklyfjar á herðunum og á engan kost annan en að sæta afarkjörum á leigumarkaði, hyggist það setjast að og starfa á Íslandi. Það á að minnsta kosti við um höfuðborgarsvæðið. Gestur Ólafsson arkitekt og skipulagsfræðingur vakti athygli á þessu í grein í Fréttablaðinu og samtali við Spegilinn.Baldur Ólafsson vinnur að lokaverkefni í námi sínu sem hann stundaði að mestu í Bandaríkjunum. Hann kallar eftir aðgerðum stjórnvalda. Það gengur  ekki lengur að setja kíkinn fyrir blinda augað, segir Baldur og gagnrýnir að stjórnvöld komi aðeins þeim til aðstoðar sem eiga,  en ekki hinum, svo sem námsfólki sem á ekkert annað en verðtryggðar skuldir. Baldur segir ótvírætt að margt fólk sem annars hefði viljað flytja heim á námi loknu hugsar sig tvisvar um. Fólk sem lýkur námi hér heima er í líkri stöðu og margir íhuga að hverfa úr landi og starfa erlendis. Baldur Ólafsson er sjálfur er í þeirri stöðu að sjá ekki framtíð á Íslandi fyrir sig og fjölskyldu sína. Hann telur mjög líklegt að hann og fjölskyldan flytji til Bandaríkjanna. Þar veldur ekki síst ástandið í húsnæðismálum.