Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ungt fólk hefur ekki efni á að vera til

Mynd: Mikael Torfason / Mikael Torfason

Ungt fólk hefur ekki efni á að vera til

16.03.2017 - 16:16

Höfundar

Mikael Torfason hefur eytt síðustu átta mánuðum í að taka viðtöl við fátækt fólk og fólk sem er við fátæktarmörk. Í útvarpsþáttaröðinni Fátækt fólk veltir hann upp spurningum um hvaða sögur við umberum af fátæku fólki og mögulegri skömm sem fylgir fátækt.

„Þetta eru tveir hópar sem eru fátækir á Íslandi,“ segir Mikael. „Annar hópurinn er fastur í fátæktargildru á örorkubótum eða einhverju slíku. Oftast eru þeir sem eru verst settir þar að berjast við geðsjúkdóma, þar höfum við mestu fordómana. Hinn hópurinn er þetta unga fólk sem er búið að mennta sig með mastersgráður í kennslufræðum og er með þannig launastrúktúr að það hefur hreinlega ekki efni á því að vera til.“

Gömmum sigað á okkar fátækasta fólk

Mikael finnst að íslenskir stjórnmálamenn hafi brugðist. „Stjórnmálamennirnir okkar, hvort sem það er Dagur B eða hvaða stjórnmálamaður sem er, eru búnir að siga hrægammasjóðum á okkar fátækasta fólk, íslenskt alþýðufólk. Þú átt að vera að leigja í Fellunum eða Bökkunum af fégráðugum sjóðum, af því að það er búið að leggja niður verkó.“

Foreldrar Mikaels fengu sína fyrstu íbúð í verkamannabústöðunum í Seljahverfi. „Mamma var heimavinnandi og pabbi fátækur námsmaður. Núna getur ungt fólk ekki komið sér í öruggt gott húsnæði. Við erum búin að skilja ofboðslega marga eftir. “

Með æluna í kokinu að semja um laun

Mikael starfaði um skeið sem ritstjóri Fréttablaðsins og samdi við fólk um laun eftir kjarasamningum Blaðamannafélagsins. „Maður var alltaf með æluna í kokinu. Vegna þess að maður var að horfa á eftir ungu fólki, búið að mennta sig og með börn, á skítalaunum.“

Lestin á Rás 1 gerði stutt stopp við heimili Mikaels Torfasona og bauð hlustendum í göngutúr með honum og hundi hans. Mikael ræddi um uppáhalds hlaðvarpsþætti sína, innblástur og útvarpsseríuna Fátækt fólk. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild í Sarpinum.

Þættir Mikaels Fátækt fólk eru á dagskrá Rásar 1 á laugardögum klukkan 10.15. Hægt er að sækja þættina í hlaðvarpi RÚV.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Bosnía væri fýsilegri kostur en Ísland