Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ungmenni vistuð á almennum deildum

20.11.2013 - 17:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna ber að aðskilja unga fanga, sem afplána refsivist, frá eldri föngum. Íslensk fangelsi bjóða ekki upp á þennan möguleika, og því hafa ungmenni verið vistuð á almennum deildum fangelsa.

Í bréfi velferðarráðuneytisins til umboðsmanns barna, segir að ekki sé mögulegt að koma nýrri stofnun á fót sem tæki við þessum börnum. Skortur er á úrræðum fyrir börn með alvarlegan vímuefnavanda og börn sem hafa komist í kast við lögin. Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er ekki heimilt að vista börn í fangelsum með fullorðnum föngum, en líkt og fram hefur komið í fréttum RÚV hafa fjórtán ólögráða einstaklingar vistast í fangelsum landsins síðan 2006, sá síðasti í september á þessu ári, eftir lögfestingu barnasáttmálans.

Umboðsmaður barna segir þörf á að koma á fót meðferðarheimili þar sem börn sem hafa hlotið fangelsisdóm geta afplánað refsingu sína. Umboðsmaðurinn hefur ítrekað haft samband við velferðarráðuneytið og bent á brýna nauðsyn þess að bæta stöðu barna með alvarlegan hegðunar- eða vímuefnavanda. Til stóð að opnað yrði nýtt meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu sem sameinaði bráðavistun og meðferð vegna alvarlegrar vimuefnaneyslu og afbrotahegðunar.

Í bréfi sem embætti umboðsmanns barna barst frá ráðuneytinu í ágúst síðastliðinn kom hins vegar fram að í ljósi aðstæðna í ríkisfjármálum telji velferðarráðuneytið ekki mögulegt að koma slíkri stofnun á fót. Umboðsmaður barna lýsir vonbrigðum sínum með þetta. Framkvæmdin undanfarin ár hafi sýnt að þau úrræði sem nú eru til staðar dugi ekki til. Umboðsmaður skorar á velferðarráðuneytið að endurskoða afstöðu sína. Aðstæður í ríkisfjármálum geti ekki réttlætt brot á grundvallarréttindum barna.