Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ungmenni með litlar áhyggjur af hlýnun jarðar

16.01.2017 - 22:06
Mynd: EPA / EPA FILE
Flest íslensk ungmenni hafa litlar sem engar áhyggjur af því að loftslagsbreytingar muni hafa áhrif á þau sjálf, samkvæmt rannsókn frá 2012. Fátt bendir til að nokkuð hafi breyst. Flestir nemendur í VMA sem fréttastofa ræddi við hafa litlar eða alls engar áhyggjur af því að loftslagsbreytingar muni hafa áhrif á sitt eigið líf.

Komandi kynslóðir erfa þann vanda sem hefur skapast af loftslagsbreytingum og þurfa að aðlagast minna aðgengi að náttúruauðlindum og breyttu loftslagi. En hversu meðvitað er ungt fólk um loftslagsbreytingar og trúir hún yfirleitt að þær séu að eiga sér stað?

14 prósent með miklar áhyggjur

Eva Halapi, sérfræðingur hjá Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri, stjórnaði árið 2012 rannsókn á viðhorfum ungra Íslendinga til loftslagsbreytinga. Um 1.500 framhaldsskólanemar tóku þátt í rannsókninni. Langflestir töldu hlýnun jarðar raunverulega, þó að viðhorfin endurspegluðu stundum annað.  

Þannig höfðu einungis fjórtán prósent miklar áhyggjur af loftslagsbreytingum . Flestir höfðu frekar litlar áhyggjur en nær einn af hverjum 10 alls engar. Á sama tíma sögðust tæp 40 prósent bandarískra ungmenna hafa miklar áhyggjur af loftslagsbreytingum, samkvæmt könnun Gallups.

„Þetta er bara næs“

„Við sjáum að jöklar verða minni, þetta er raunverulegt fyrir okkur, þannig að við hugsum bara með okkur að þetta er aukahiti, þetta er bara næs. Meiri sól og hlýrra,“ segir Eva.  

Rúmlega þrír af hverjum fjórum töldu afleiðingar loftslagsbreytinga þó verða alvarlegar.

„Þau sem hafa meiri þekkingu um hvernig loftslagið virkar, þau eru meira tilbúin að gera breytingar í lífi sínu. Sem segir okkur að kunnátta er mikilvæg.“

Viðhorfið hefur lítið breyst

Rannsóknin er frá 2012 og hefur umræðan um loftslagsmál orðið töluvert háværari á undanförnum árum. Árið 2012 höfðu um 10 prósent ungmenna áhyggjur af því að loftslagsmál hefðu áhrif á sitt eigið líf. Fréttastofa tók nokkra nemendur Verkmenntaskólans á Akureyri tali og spurði hvort þau hefði áhyggjur af því að þetta hefði áhrif á þeirra eigið líf. Langflestir sögðust annað hvort ekki hugsa um það eða að þau hefðu engar áhyggjur. Viðtalið við nemendurna má sjá í spilaranum fyrir ofan.

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV