Unglingsár lýðveldis á persónulegum nótum

Mynd: Einkasafn / Ungir Íslendingar - RÚV

Unglingsár lýðveldis á persónulegum nótum

14.02.2018 - 18:00

Höfundar

„Ég hefði svo viljað hafa það veganesti meira í huga þegar ég var ungur að það er allt í lagi að misstíga sig, vera hallærislegur,“ segir Stefán Karl Stefánsson leikari í stiklu þáttanna Unga Ísland. Þjóðþekktir Íslendingar segja frá unglingsárum sínum í nýjum heimildaþáttum sem hefja göngu sína á RÚV annað kvöld.

Hver þáttur spannar einn áratug og fjallar um unglingamenningu þess tíma. Viðmælendur í fyrsta þætti eru Birgitta Haukdal, Bragi Valdimar Skúlason, Ilmur Kristjánsdóttir, Lára Björg Björnsdóttir og Stefán Karl Stefánsson.

Skemmtilegasti tími ævinnar

Björn B. Björnsson er framleiðandi og höfundur þáttanna. Hann segir þættina fjalla um tímabilið allt aftur til 1940 og því séu unglingsár alls lýðveldistímans til umfjöllunar. „Fyrsti áratugurinn er fyrsti áratugur lýðveldisins. Núna eru síðustu forvöð að ná því fólki úr elsta hópnum.“ Hann segir efnið vera ægilega skemmtilegt, enda séu unglingsárin jafnan skemmtilegasti tími ævinnar hjá öllum. „Allir hafa gaman af því að tala um þetta og segja frá þessu.“

Flestir þekkja sinn áratug

Björn nefnir að áhugavert sé að sjá hvað unglingar eigi sameiginlegt þvert á kynslóðir, og sömuleiðis hvað breytist og hvað geri það ekki. Fólk sé að uppgötva ástina í fyrsta skipti, drekka og skemmta sér. Tískan fær einnig pláss í þáttunum, enda órjúfanlegur hluti af unglingamenningu. „Ég hugsa að flestir hafi gaman af því að sjá sinn áratug, flestir munu þekkja margt í sínum áratug,“ segir Björn.

Hefði verið hægt að gera miklu meira

Myndir eru lykilatriði í dagskrárgerð af þessu tagi og segist Björn hafa auglýst eftir myndefni og hafa fengið góðan liðsauka tveggja kvenna til að finna myndir hjá fólki. Auk þess fóru framleiðendur á ljósmyndasöfn og sóttu í safn sjónvarpsins. Hann segir jafnframt að gera hefði mátt mun lengri og ítarlegri þætti um hvern áratug en upphaflega hafi staðið til að hafa fleiri viðmælendur í þáttunum. Lokaniðurstaðan hafi þó orðið fjórir til fimm viðmælendur í hverjum þætti. Því hafi ekki allir komist að. „Maður fann fyrir því að það hefði verið hægt að gera miklu meira.“

Persónuleg reynsla og tengsl

Á fyrri stigum eftirvinnslu stóð til að klippa þættina í fleiri og smærri einingar, en síðan var horfið frá þeirri tillögu og þess í stað fékk saga hvers og eins að njóta sín sem ein heild. „Það verður persónulegra og skemmtilegra,“ segir Björn. „Allir viðmælendur eru að segja frá tíðaranadanum en líka gefa af sér og sínu lífi. Það verður persónulegra, það verður að vera þessi persónulega upplifun og tengsl,“ segir hann að lokum.

Tengdar fréttir

Innlent

„Lífið er núna“