Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Unglingar dæmdir í fangelsi

08.05.2012 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Tveir drengir, 15 og 16 ára, voru nýverið dæmdir í 30 daga óskilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa framvísað fölsuðum vegabréfum við komuna til Íslands í lok apríl. Forstjóri Barnaverndarstofu segir að íslensk börn hefðu aldrei hlotið jafn harða refsingu.

Hinn 25. apríl komu tveir alsírskir drengir, 15 og 16 ára, með flugi til Íslands. Við vegabréfaeftirlit á Keflavíkurflugvelli framvísuðu drengirnir fölsuðum vegabréfum og voru handteknir. Drengirnir játuðu brot sín og voru 30. apríl dæmdir til 30 daga óskilorðsbundinnar fangelsisvistar. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir að dómurinn komi mjög á óvart, enda séu ekki fordæmi fyrir því að svo ungt fólk sé dæmt í fangelsi fyrir brot af þessu tagi.

„Ef um íslensk börn væri að ræða kæmi aldrei til álita að dæma íslenskt barn til fangelsisvistar vegna skjalafals. Það er einungis í mjög alvarlegum brotum eins og líkamsárásum, vopnuðum ránum eða þegar um mjög ítrekuð alvarleg brot er að ræða sem ungmenni yngri en 18 ára hljóta óskilorðsbundna dóma. Þannig að ég fæ ekki betur séð en að þessi dómur sé úr öllu hlutfalli við dómaframkvæmd hérlendis," Segir Bragi.

Drengirnir voru í fangelsi í Keflavík í þrjá sólarhringa eftir að dómur féll, en þá gripu Barnaverndarstofa og Fangelsismálastofnun inn í málið og kom þeim fyrir á viðeigandi stofnunum.

Bragi segir dóminn vera í ósamræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þá sérstaklega rétt barns til verndar. Börn sem leiti sér hælis sem flóttamenn hafi gengið í gegnum erfiða lífsreynslu, og dómur sem þessi sé ekki til þess fallinn að hjálpa þeim.

„Ég held að þetta sé í alla staði óheppilegt og í rauninni ekki nokkur einasta þörf á að taka þannig á móti þessum börnum," segir Bragi sem efast ekki um að refsingin hefði verið mildari hefðu drengirnir verið íslenskir.

„Það er náttúrulega alveg ljóst að íslensk, sakhæf ungmenni sem brjóta af sér með hliðstæðum hætti, það er að segja gerast sek um skjalafals, þau yrðu aldrei dæmd til óskilorðsbundinnar refsingar.“