Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ungar mæður helst atvinnulausar

22.06.2013 - 16:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Atvinnulíf á Norðurlandi eystra hefur verið á hægri uppleið síðan vorið 2009 og náð góðu jafnvægi, segir forstöðumaður Vinnumálastofnunar á svæðinu. Það séu helst ungar konur sem finni ekki vinnu við hæfi.

Soffía Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar Norðurlands eystra, segir að atvinnuleysi á svæðinu sé nú um þrjú prósent. Fólki fækki að jafnaði á atvinnuleysisskrá á sumrin, þótt þeirra áhrifa gæti reyndar betur meðal karlmanna en kvenna. Að sögn Soffíu voru 3 prósent karla á Norðurlandi eystra atvinnulaus, en 3,8 prósent kvenna. Um leið og verklegar framkvæmdir hefjist í sumarbyrjun fái fleiri karlar en konur vinnu, en helst sitji eftir ungar mæður.

Soffía telur að nú sé fyrst komið ákveðið jafnvægi á vinnumarkaði eftir hrun. Árstíðarsveiflur í atvinnulífinu séu óhjákvæmilegar, sérstaklega á landsbyggðinni. Atvinnuleysisskrárnar tæmist nánast í smærri samfélögum úti á landi, bæði við sjávarsíðuna og þar sem ferðaþjónusta er mikil. Á haustin tínist svo fólkið aftur inn á atvinnuleysisskrá og svo út aftur að vori.