Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ungar finnast í baðskáp og innkaupakerru

13.06.2014 - 11:47
Mynd með færslu
 Mynd:
„Ég hélt að þetta væri eftir mýs en þá hafði fuglinn verið að brasa við að troða grasi inn í skápinn sem var hluta til opinn,“ segir Hildigunnur Jörundsdóttir sem fann fuglshreiður á heldur óvenjulegum stað í sumarbústað í Ranaskógi í Fljótsdal.

Hún var þar í gær ásamt manni sínum og fundu þau hreiður í baðskáp á útikamri. Þau sáu foreldrana ekki koma í hreiðrið meðan þau voru í bústaðnum en sáu maríuerlu bíða átekta. „Við bara pössuðum okkur að koma ekki við neitt,“ segir Hildigunnur.

Þau hjónin eiga hjólhýsi sem staðið hefur lengi í Ranaskógi í Fljótsdalnum rétt fyrir innan Hallormsstaðarskóg. Útiklósett er um fimm metra frá hjólhýsinu og pallur á milli. Þórlindur segir að ungarnir hljóti að vera örfárra daga gamlir því þeir séu staurblindir og fiðurlausir. Hann telur að þeir séu fjórir til fimm. Hann segist ekki viss hversu lengi þarf að hafa salernið í gjörgæslu og segir að það væri ágætt að fá upplýsingar um það. Ekki er önnur salernisaðstaða við hjólhýsið, sem þau hjónin nota mikið, sérstaklega þegar veður er gott. „Við ætlum að nota aðstöðuna með varkárni og aðeins í neyð,“ segir Þórlindur og hlær. 

Fuglarnir hreiðra um sig á ólíklegustu stöðum. Þannig verpti þröstur í innkaupakerru á bak við Gamla Kaupfjelagið á Breiðdalsvík sem nú er kaffihús. „Það voru gamlar innkaupakerrur í bunka fyrir aftan og þröstur hefur gert sér hreiður þarna. Það er líf í innkaupakerrunni“ segir Friðrik Árnson, hótelhaldari á Hótel Bláfelli á Breiðdalsvík. Hann tók mynd af hreiðrinu en það var Njáll Torfason sem fann hreiðri. 

Myndir: Þórlindur Magnússon