Ungæðislegur galsi og gæði í mörgum geirum

Mynd: Myndband: Undir trjánum / Myndband: Undir trjánum

Ungæðislegur galsi og gæði í mörgum geirum

13.04.2019 - 14:35

Höfundar

Hljómsveitin Bagdad Brothers hefur vakið mikla athygli undanfarið fyrir slípað og draumkennt indírokk. Færri vita hins vegar að sveitin er hluti af tónlistarbandalaginu Post-dreifingu sem inniheldur ótal hljómsveitir og einyrkja.

Post-dreifing hefur í um þrjú ár gefið út plötur, framleitt myndbönd og staðið fyrir tónleikum með ótal böndum, og í fyrra gáfu þau út safnskífurnar Drullumall 1 og 2. Listamennirnir innan hópsins eru ólíkir í hljóm og stílum en það sem bindur þá saman er ákveðin „gerðu-það-sjálfur“ hugmyndafræði og andúð á kapítalisma. 

Á dögunum kom út önnur plata hljómsveitarinnar Gróu, Í glimmerheimi. Gróu skipa Fríða Björg Pétursdóttir, Hrafnhildur Einarsdóttir og Karólína Einarsdóttir sem eru ekki orðnar tvítugar og eru það dúndurpönkaðasta sem ég hef heyrt í háa herrans tíð.

Raddirnar og ryþmatilfinningin hljóma eins og tímavél úr Rokki í Reykjavík, Ellý í Q4U upprisin eða Ari Up úr The Slits, hreinræktuð, heimagerð og óslípuð estrógenorka sem hankar þig á offbítinu og rífur upp úr vananum, en dettur samt aldrei í nostalgíurúnk. „Fullkomið, fullkomið, get ekki lifað án þín, sömuleiðis,“ öskra þær út í tómið í fyrsta lagi og hrífa alla sem á hlýða. En þrátt fyrir hráann hljóminn eru þær gríðarvel spilandi, ryþmaparið grúvar af innblásnu öryggi og fetar oft fönkaða krákustíga og krappar síðpönksbeygjur.

Lagasmíðarnar eru óhefðbundnar og yfirleitt enginn aðalsöngvari og vers-viðlag-vers, heldur syngja þær allar og kallast á við hver aðra, öskra og skrækja, tralla og kyrja. Í þriðja laginu byrja þær á stressandi píanóglamri og vælandi hljóðgervli sem fylgir eftir í viðlaginu, hún er í „glimmerheimi með glimmerfólki,“ við þrammandi bassalínu og stakkató oddhvassar gítarstungur.

Stelpurnar eru gríðarhæfileikaríkar, ekki síst miðað við aldur, og ungæðisleg orkan skilar sér vel af upptökunum í heimapartýið og heyrnartólin. Ég ætla mér svo að reyna að ná þeim á sviði í náinni framtíð, og hlakka mjög til.

Í lok síðustu viku kom síðan út breiðskífa með Skoffíni, Skoffín bjargar heiminum, sem er hugarfóstur tónlistarmannsins Jóhannesar Bjarka Bjarkasonar. Hann er eins konar hráslagalegt söngvaskáld sem lýsir vínblautum veruleika Reykjavíkurlífs á sjálfstýringu í gegnum mökkaða bari og mistruð eftirpartý. Í upphafslínum ruddarokkarans Sígarettur og vín, syngur hann „Ég er í partýi á Njálsgötunni, partýi sem ég nenni ekki að vera í. Allt flæðir bæði samtölin og vín, mér er alveg sama um afrek þín.“ Honum leiðist óheyrilega og það eina sem hann langar í er sígaretta og vín. Skoffín buslar í textabrunni frá böndum og tónlistarfólki eins og Grísalappalísu, Megasi og Purrki Pillnikk, en samt aldrei á eftirhermu- eða afleiðulegan hátt.

Í Lala Rookh eru grípandi gítarkrækjur í tonnatali og drafandi sönglínur eins og „Þeir sigldu inn um sundin já grá og skítuuuuug. Mér sýndist ég sjá djöfullinn með hala og gleraugu.“ Um miðbik plötunnar dettur hún í angurværu píanóballöðuna „Skoffín bjargar heiminum“. Hann er langt frá því að vera góður söngvari í hefðbundnum skilningi, raddbeitingin er nær því að vera talandi og sönglandi en klassískur söngur, og það myndar góða andstæðu við hæga píanóhljómana og tregafulla strengina, línur eins og „Ég er ekki neytandi, ég er litla skoffínið. Hvar færðu þessa peninga, arðrænirðu aðra?“

Risar er með Strokes-legum riffum og söngstíl þar sem sögumaður finnur sig milli svefns og vöku öskrandi á tunglið, og endar svo í tryllingslegum ómstríðum lúðraþyt eins og lagið sé að falla saman. Skoffín er undir talsverðum áhrifum frá póstpönki og ljóðarokki Grísalappalísu og virðist viðurkenna það með augljósri vísun í laginu Lísa Lísa, sem er eitt það besta á plötunni. Platan er einhvern veginn heilsteypt í losaralegheitum sínum, hangir saman á heillandi textum og kæruleysislegum brag.

K.óla er listamannsnafn Katrínar Helgu Ólafsdóttur sem framleiðir metnaðarfulla raftónlist með súrum textum og virðist undir áhrifum frá til dæmis The Knife, Fever Ray og Kate Bush. Hún gaf út þröngskífu undir fána Post-dreifingar árið 2017 og í fyrra gaf hún út tvö myndbönd þar sem hún hefur þróað hljóm sinn lengra og komið sér upp einkennandi fagurfræði þar sem hún setur upp pappaaugu og pappavarir. Lag hennar Undir trjánum er að öðrum ólöstuðum hennar sterkasta verk hingað til.

Mynd: RÚV / RÚV
Bagdad Brothers kíktu við í Stúdíó 12 á dögunum.

Bagdad Brothers sem minnst var á í byrjun osmósa út frá sér letilegu og útpældu gítarsándi og söngurinn er kynflöktandi falsetta sem er í senn áreynslulaus og kraftmikil, og textarnir eru súrrealísk samsuða sem malar í kassanum. Fjögurra laga þröngskífan Sorry sem kom út í febrúar innuheldur bæði angurværu ástarsorgaróðana Það varst ekki þú, og Burt með sumrinu, en gefur líka í og kyndir upp í partýinu með lögunum Sjálfbær elskhugi, og Strákar. Bagdad brothers sækja jafnt í erlendar indígítarhetjur eins og Mac Demarco, The Smiths og The Shins, og í íslenska dægurlagahefð eins og Stuðmenn, Bjartmar og Mannakorn.

En sem dæmi um breiddina sem er að finna innan Post-dreifingarhópsins má ég til með að enda á því að nefna skrýtirafpoppsveitina sideproject sem gaf út plötuna Isis Emoji á síðasta ári. Þar fer lítið fyrir rafmagnsgíturum en þeim mun meira er um tilraunakennda rafskúlptúra, æstar hljóðgervlalínur, bjagaðar raddir, ljónharða trommuheila og villtar taktbreytingar í anda Aphex Twin og Autechre. Hinum gamalkunna amen-trommutakti bregður meira að segja fyrir í hinu stórskemmtilega lagi (og lagatitli) Hver gleymdi að loka uppþvottavélinni. Það er ekki finna tilgerð í snefilmagni á plötunni eins og svo oft vill hrjá þennan geira heldur einungis ómengaða glettni og spilagleði, og ég hef heyrt góðan róm gerðan að tónleikum sveitarinnar.

Það er ljóst að íslensk neðanjarðartónlist er í miklum blóma og þar fer listahópurinn og útgáfan Post-dreifing einna fremst í flokki. Þrátt fyrir mikla breidd í hljómi og geirum innan samstæðunnar er einhver pönkaður gáski og andkapítalískur „gerðu-það-sjálfur“ andi sem bindur þetta allt saman. Næst á döfinni hjá félagsskapnum eru útgáfutónleikar fyrir Skoffín bjargar heiminum í Tjarnarbíói 26. apríl, og útgáfutónleikar fyrir plötu Gróu, Í glimmerheimi, í Mengi 11. maí næstkomandi. Það er ókeypis inn á tónleikana auk þess sem allar plötur útgáfunnar eru fáanlegar í mp3-formi á Bandcamp-síðu Post-dreifingar þar sem fólk ræður hvað það greiðir fyrir þær.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Geturðu plöggað okkur í Vikuna?“

Tónlist

Frá Bítlum og Brunaliði til Bagdad