Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ung Nordisk Musik sett í kvöld

28.08.2012 - 18:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Sum tónverk þröngva sér upp á mann á meðan önnur láta manni líða vel. Þetta segir stjórnandi strengjasveitarinnar SKARK sem tekur þátt í samnorrænni hátíð ungra tónskálda sem að þessu sinni er haldin hér á landi. Efnisskráin er fjölbreytt.

Opnunartónleikar Ung Nordisk Musik-hátíðinar verða í Listaháskólanum í kvöld. Tónleikar SKARK verða svo annað kvöld. Á hátíðinni verða leikin verk eftir ung tónskáld frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi. Fimm ár eru frá því hátíðin var síðast haldin hér á landi. 

„Þetta er rosalega mikilvæg hátíð, reynslumiðlandi hátíð. Þarna eru ung tónskáld og ungir flytjendur sem fá þarna dálítið góða reynslu að flytja músík og líka bara þessi samskiptavöllur í rauninni þar sem þú hittir kollega á norðurlöndunum og kynnist þeim og þarna skapast rosa dýrmæt tengsl og þess háttar," segir Þráinn Hjálmarsson, skipuleggjandi hátíðarinnar.

Viktor Orri segir það sammerkt með ungum tónsmiðum á Norðurlöndunum að sækja sér innblástur í náttúruna. Gróska sé í tónsmíðunum og menn verði ríkari í hjarta að kynnast tónsmíðum annarra. SKARK leikur fleiri verk annað kvöld, þeirra á meðal Leiðangur um Bókasafnið í Babel eftir Alessandro Perini frá Svíþjóð.

Á hátíðinni verða flutt allskonar verk. „Það er annað hvort eitthvað sem maður mun geta lokað augunum og bara getað notið eða músík sem mun bara alveg ráðast á mann, heltaka mann," segir Viktor Orri. 

Dagskrá hátíðarinnar má finna hér á vefnum.