Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Undrast aðkomu ráðuneytisins

22.01.2016 - 19:04
Hafnartorg. Byggingarreitur við Tollhúsið þar sem Landstólpi þróunarfélag reisir íbúðarhús og skrifstofu- og verslunarhúsnæði.
 Mynd: ruv
Formaður Arkitektafélags Íslands undrast aðkomu forsætisráðuneytisins að hönnun húsa á Hafnartorgi. Ekki megi breyta fyrri teikningum nema í samráði við arkitektinn. Formaðurinn segir að Arkitektafélagið ætli að fjalla um málið.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra gagnrýndi útlit húsa sem til stendur að reisa á Hafnartorgi í Reykjavík, þegar útlit svæðisins var kynnt. Í fréttum Rúv í gær kom fram að Landstólpi, sem ætlar að byggja á svæðinu, hafi boðið stjórnarráðinu að leigja allt skrifstofurýmið og að forsætisráðuneytið komi að endurhönnun húsanna.

Aðalheiður Atladóttir formaður Arkitektafélags Íslands segir að þetta komi sér spánskt fyrir sjónir og ferlið hafi verið skrýtið. Endurhönnuninni á að vera lokið fyrir 12. febrúar og segir Aðalheiður það skamman tíma fyrir svona stórt verk. Ekki megi breyta fyrri teikningum nema í samráði við arkitektinn sem þær gerði.

Hún segir að ef þetta mál verður fordæmi, þá sé það ekki gott fordæmi. „Tökum Þýskaland sem dæmi, því ég þekki vel til þar, ef Angela Merkel sem dæmi færi að skipta sér með sama hætti að skipulagi í Berlín og útliti húsa þar þá yrði hreinlega allt vitlaust. Það er ekki hennar verksvið að gera það, til þess eru skipulagsyfirvöld og arkitektarnir til að útfæra" segir Aðalheiður.

Hún segist líta svo á að forsætisráðherra sé þarna að lýsa eigin smekk, hann sé ekki fagmaður á þessu sviði svo hún viti. Hún segir að Arkitektafélagið ætli að láta málið til sín taka. „Það er í undurbúningi og við höfum hug á að halda félagsfund og ræða þessi mál. Það er ályktun í undirbúningi.“

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV