Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Undirskriftasöfnun nú alfarið í höndum nemenda

18.03.2019 - 11:52
Mynd með færslu
Hagaskóli. Mynd: skjáskot af ja.is. Mynd:
Undirskriftasöfnun nemenda við Hagaskóla, gegn brottvísun afganskrar fjölskyldu til Grikklands, var stöðvuð í síðustu viku vegna formsatriða, að sögn Ingibjargar Jósefsdóttur, skólastjóra. Söfnunin er hafin á ný og segir skólastjórinn framtak nemendanna lofsvert.

Í fyrstu var undirskriftasöfnunin á vegum réttindaráðs skólans, nemendafélagsins og nemendafulltrúa. Ingibjörg segir að í fyrstu hafi verið óljóst að hve miklu leyti söfnunin væri á vegum skólans. Sé hún ekki á vegum skólans þurfi ekki að tilkynna foreldrum sérstaklega um hana. 

Rætt var við tvo nemendur Hagaskóla í Morgunútvarpinu í morgun. Nú er söfnunin alfarið á vegum nemenda. Með söfnuninni vilja þau að Zainab Safari, 14 ára nemandi við skólann, móðir hennar og yngri bróðir, verði ekki send til Grikklands, líkt og til stendur. Þau eru Afganir, sem hafa búið í Íran. Þaðan flúðu þau til Grikklands og verða að óbreyttu send þangað.  

Óvissa var einnig um það í síðustu viku hvort það væri hentugt fyrirkomulag að nemendur færu inn í stofur til að safna undirskriftum. Ingibjörg segir að innan skólans sé þeim nú safnað í sal skólans. „Þetta er frábært verkefni sem ber að lofa. Það voru ákveðin formsatriði í síðustu viku sem við vildum hafa hundrað prósent á hreinu.“

Ingibjörg segir að skólinn hafi alltaf stutt framtak nemendanna en einnig viljað að söfnunin færi fram með eins réttum hætti og unnt væri. Þau eru nú aftur komin með undirskriftalistana í hendur. „Þau eru komin af stað aftur, það er mikil gleði í lofti og vonandi að þeirra framlag skipti máli.“

Undirskriftirnar verða afhentar Útlendingastofnun síðar í vikunni, að því er fram kom í Morgunútvarpinu í morgun.