Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Undirskriftalisti afhentur á Alþingi

02.05.2014 - 20:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Undirskriftir tæplega 54.000 kjósenda voru afhentar forseta Alþingis í dag þar sem skorað var á þingið að hætta við að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Utanríkisráðherra segir koma til greina að leysa málið með aðkomu þjóðarinnar. Honum hugnist ekki að láta reyna á þingmeirihlutann í málinu.

Við afhendingu undirskriftalistans sagði forsvarsmaður söfnunarinnar að málið snerist ekki um Evrópusambandið, heldur rétt almennings til að koma að málum sem varða framtíð þjóðarinnar. Forseta Alþingis og þingflokksformönnum var afhentur listinn, ásamt áskorun um að Alþingi leggi til hliðar þingsályktunartillögu um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, og boða í framhaldinu til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður. 

„Mér finnst eðlilegast að menn efni þau heit sem voru gefin fyrir kosningar og það verði kosið um framhald málsins, þ.e.a.s hvort það eigi að halda þessu umsóknarferli áfram eða ekki", sagði Benedikt Jóhannesson, formaður Sjálfstæðra Evrópumanna.

Utanríkisráðherra segir að vilji sé fyrir því að koma til  móts við óánægjuraddir með einhverjum hætti, svo framarlega sem ríkisstjórnin nái sínu fram um að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu: „Ég vil ítreka það að ég er opinn fyrir hugmyndum ef að það er hægt að ná einhverri lendingu sem að gerir það samt að verkum að ríkisstjórnin nær sínu að sjálfsögðu fram um að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu. Einn liður í því getur verið að hleypa þjóðinni að þessu með einhverjum hætti. Hin leiðin er að halda málinu óbreyttu og láta reyna á þingmeirihlutann. En ég held að það sé kannski sá sísti kostur sem menn sjá í stöðunni í dag".