Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Undirbýr sölu á hlut ríkisins í Landsbanka

19.09.2013 - 16:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjármálaráðherra ætlar á næstunni að leggja til að um fjórðungur af hlut ríkisins í Landsbankanum verði seldur, til að grynnka á skuldum og vaxtagjöldum ríkissjóðs. Hann boðar einnig að yfirlýsing um ríkisábyrgð á innistæðum verði afnumin.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var meðal ræðumanna á morgunfundi Landsbankans um íslensk fjármálafyrirtæki sem kost fyrir fjárfesta. Ríkissjóður er stærsti eigandi Landsbankans, á 98 prósent hlutafjár í bankanum, og er heimilt, samkvæmt núgildandi lögum, að selja allt að 28 prósenta hlut.

Bjarni segir að það þurfi að gera ráð fyrir sölunni í fjárlagafrumvarpi. Hann hyggst leggja það til við þingið að ríkið geti losað um sinn hlut í bankanum sem er umfram 70 prósent. 

Fyrst þarf þó að koma til endurfjármögnun á skuld nýja Landsbankans við þann gamla og stefnumótun yfirvalda hvað varðar eignarhlut í fjármálafyrirtækjum, segir Bjarni. Hann talaði einnig afdráttarlaust um að andvirði sölunnar ætti að fara í að bæta stöðu ríkissjóðs - greiða niður skuldir og lækka vaxtagjöld. Bjarni segir augljóst að ríkið hafið gríðarlega hagsmuni af því að fá sem fyrst til baka það sem lagt var í bankann til þess að losna undan vaxtarbyrði lána sem tekin voru við stofnun hans.