Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Undirbýr hópmálssókn vegna fæðingarorlofs

28.10.2016 - 14:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Sara Pálsdóttir héraðsdómslögmaður hvetur foreldra sem hófu töku fæðingarorlofs fyrir 15. október að taka þátt í hópmálssókn sem hún undirbýr nú gegn ríkinu. Sara telur að verið sé að mismuna foreldrum á ómálefnalegan hátt og sé það í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Ríkisstjórnin samþykkti í byrjun mánaðarins hækkun hámarksgreiðslna í fæðingarorlofi úr 370.000 krónum á mánuði í 500.000. Breytingin tók gildi þann 15. október og náði einnig til fæðingarstyrks og lágmarksgreiðslu í fæðingarorlofi.

Strax heyrðust gagnrýnisraddir um tilhögun og tímasetningu breytinganna. Þeir sem áttu von á barni dagana fyrir 15. október gagnrýndu breytinguna hvað harðast en hún nær aðeins til foreldra þeirra barna sem fæddust 15. október eða seinna.

Sara Pálsdóttir héraðsdómslögmaður eignaðist dreng í júní og finnst að með þessari breytingu sé verið að mismuna foreldrum á ómálefnalegan hátt. Hún segist ekki vera að véfengja þann rétt stjórnvalda að draga skurðpunkt, heldur með hvaða hætti það er gert. Flestum sem hafi einhverja réttlætiskennd sé misboðið.

Eygló Harðardóttir svaraði þessari gagnrýni með því að ekki væri til nægt fjármagn svo að breytingin gæti náð til allra þeirra sem nú eru í fæðingarorlofi, og því væri nauðsynlegt að setja þann skurðpunkt sem varð. Hún benti á að þegar lögin um fæðingarorlof tóku gildi árið 2000 hafi sams konar reglur gilt og nú. Ákvæðin tóku til foreldra barna sem fæddust 1. janúar 2001, eða síðar, en ekki þeirra er þá þegar voru í fæðingarorlofi. Hið sama hafi verið uppi á teningnum þegar miklar skerðingar voru gerðar á kerfinu árið 2009.

Sara Pálsdóttir gagnrýnir að við þessar breytingar séu, á sama tíma, foreldrar að fá fæðingarorlofsgreiðslur eftir tvenns konar reglum, eftir því hvort börn þeirra fæddust fyrir eða eftir 15. október. Hún telur að rökin um að „svona hafi þetta alltaf verið gert“ séu léttvæg. Ef fjármagn skorti hafi verið raunhæfara að hækka greiðslurnar aðeins minna og láta breytinguna ná til allra foreldra í fæðingarorlofi, frá og með 15. október. Þannig sé ekki verið að greiða foreldrum sem eru í fæðingarorlofi á sama tíma eftir mismunandi reglum.

Sara skráði sig á alla mömmuhópa á Facebook sem hún fann og setti þar inn bréf til þeirra foreldra sem verða af þeirri hækkun sem varð 15. október. Þar hvetur hún þá til að taka þátt í hópmálssókn gegn ríkinu til að fá þessari ákvörðun hnekkt. Hún segir í samtali við fréttastofu hafa hugsað með sér að ef hún myndi ekki láta á þetta reyna fyrir dómstólum myndi hún sennilega sjá eftir því.

Fyrir dómi mun hún krefjast þess að hún fái, sem foreldri, greitt úr fæðingarorlofssjóðnum eftir þeim reglum sem gilda eftir breytingarnar 15. október, líkt og foreldrar þeirra barna sem fæddust eftir þann tíma. Meginrök Söru eru að hér sé verið að brjóta jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það fylgi því nokkur kostnaður að fara fram með svona mál, og því hefur hún kallað eftir liðsinni annarra foreldra í sömu stöðu, og leggur til að þau fari saman fram með málið sem hópmálssókn. Fyrir marga foreldra geti verið um tugi eða hundruð þúsunda að ræða.

Sara vonast til að hægt verði að stefna málinu inn sem fyrst, enda hafi fjölmargir nú þegar sett sig í samband við hana og hún vonast til að lágmarksfjöldanum verði náð fljótlega. 50 manns þurfi til að stefna málinu inn sem hópmálssókn, og um leið og sá fjöldi sé kominn fari þau af stað.