Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Undirbúningur nýs Herjólfs á áætlun

06.02.2019 - 07:15
Mynd með færslu
Ný Vestmannaeyjaferja í skipasmíðastöð í Póllandi í ágúst 2018. Mynd: Vegagerðin
Eins og staðan er í dag er ekkert sem gefur tilefni til að ætla að ný Vestmannaeyjaferja hefji ekki siglingar á tilætluðum tíma. Þetta segir framkvæmdastjóri nýs Herjólfs.

Eftir langa bið styttist í að ný Vestmannaeyjaferja verði tekin í gagnið. Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., segir að undirbúningur fyrir siglingar nýs Herjólfs milli lands og Eyja sé samkvæmt áætlunum. „Það er gert ráð fyrir að nýja ferjan fari í rekstur 30. mars og það er ekkert sem gefur tilefni til að ætla að svo verði ekki, eins og staðan er í dag.“

Guðbjartur segir að vel hafi gengið í skipasmíðastöðinni í Póllandi. Ráðgert er að ferjan fari í sjóprófanir á næstunni. „Það er ekki fyrr en þeim er lokið sem hægt er að gefa út endanlega tímasetningu um hvenær af afhendingu á ferjunni verður.“

Tæpir tveir mánuðir eru þar til nýja skipið á að hefja áætlanasiglingar. Áður en að því kemur þarf að þjálfa starfsfólk og sigla nýja Herjólfi bæði í Landeyjahöfn og Þorlákshöfn svo kynnast megi skipinu áður en farþegaflutningar hefjast. Guðbjartur segir stefnt að því að ljúka öllum ráðningum um miðjan mánuð og nýtt bókunarkerfi verður tilbúið áður en siglingar hefjast.