Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Undirbúa útgáfu þriðja bindisins

04.06.2011 - 05:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Biðin eftir þriðja bindi Sögu Akraness gæti orðið mun skemmri en biðin eftir fyrstu tveimur bindunum. Ritnefnd um sagnaritunina hefur óskað eftir því við bæjarráð Akraness að samið verði um höfund fyrstu tveggja bindanna um að búa það þriðja til prentunar. Þá beiðni hefur bæjarráð tekið jákvætt í. Saga Akraness komst í fréttirnar þegar útgáfa hennar tafðist í á annan áratug og kostnaður fór yfir hundrað milljónir króna.

Jón Gunnlaugsson, formaður ritnefndar, segir að búið sé að skrifa handrit bókarinnar að stórum hluta og það geti verið tilbúið eftir tæpt ár og jafnvel fyrr. Hins vegar ráðist það af vilja bæjaryfirvalda og útgefanda hvenær þriðja bindið af fjórum yrði gefið út.


Harpa Hreinsdóttir íslenskukennari hefur gagnrýnt hvernig staðið hefur verið að ritun bókanna, í pistlum sem hún hefur ritað á netinu, og nýlega sendi hún bæjarráði ábendingar um hvernig staðið hefði verið að málum. Guðmundur Páll Jónsson, formaður bæjarráðs, segir hins vegar að þær ábendingar hafi engin áhrif á það hvert framhaldið verði á ritun og útgáfu á sögu Akraness.