Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Undirbúa nýja verslun á Borgarfirði eystra

22.05.2018 - 15:21
Mynd með færslu
 Mynd: Elísabet D. Sveinsdóttir
Hafinn er undirbúningur að opnun verslunar á Borgarfirði eystra. Gengið hefur verið frá kaupum á verslunarhúsnæði og búið að stofna félag um reksturinn. Engin verslun hefur verið á Borgarfirði frá því síðastliðið haust.

Eftir íbúafund um verslunarmál sem haldinn var á Borgarfirði í lok apríl var ákveðið að freista þess að leita samstarfs við Samkaup, sem lengi rak verslun á Borgarfirði, áður en ráðist yrði í stofnun sérstaks félags með þátttöku heimamanna. Þær viðræður leiddu í ljós að Samkaup hyggst ekki hefja á ný  verslunarrekstur á Borgarfirði.

Því hefur nú verið stofnað félag um rekstur verslunar þar sem heimamönnum á Borgarfirði, brottfuttum og fleirum, verður gefinn kostur að leggja fram hlutafé. Áður hafði verið gengið frá kaupum á húsnæði þar sem verslunin Eyrin var starfrækt, en henni var lokað í september.

Í vetur var Borgarfjörður eystri tekinn inn í verkefni Byggðastofnunar um brothættar byggðir. Þar settu íbúar sem forgangsatriði að opna aftur verslun á Borgarfirði.