
Undirbúa að slökkva á álverinu
Verkfall um 300 starfsmanna álversins hefst eftir ellefu daga, ef ekki semst. Gylfi Ingvarsson, talsmaður samninganefndar stéttarfélaga í álverinu, segir að ekkert hafi gerst í samningaviðræðum. Síðasti fundur var síðasta þriðjudag og annar hefur verið boðaður nú á þriðjudaginn. Rio Tinto Alcan, sem rekur álverið, vill fá að notast við verktaka í auknum mæli, en það vilja stéttarfélögin ekki.
Ólafur Teitur Guðnason, talsmaður Rio Tinto Alcan, segir að deilan strandi á því að fyrirtækið fái ekki að sitja við sama borð og önnur fyrirtæki í landinu, þegar kemur að möguleikum til að bjóða hluta starfseminnar út.
Hann segir að nú liggi fyrir að byrjað verði að slökkva á fyrstu kerjunum strax annan desember, ef ekki semst. Um tvær vikur taki að slökkva alveg á verksmiðjunni. Í kjarasamningum sé kveðið á um að stéttarfélögin skuli útvega það fólk sem þarf til að valda sem minnstu tjóni þegar slökkt er á verksmiðjunni. Fyrirtækið hafi talið sig þurfa alla, og félögin hafi nú fallist á það. Búið sé að stofna sérstakan hóp til að slökkva á kerjum.
Ólafur Teitur vonast til að samningar náist, svo ekki þurfi að slökkva á álverinu, en ef það verður gert er dýrt að kveikja á því aftur.