Una María og Jón Þór taka sæti á Alþingi

30.11.2018 - 20:10
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Una María Óskarsdóttir og Jón Þór Þorvaldsson munu að öllu óbreyttu taka sæti á Alþingi eftir helgi. Þau eru varamenn þeirra Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar sem sögðust ætla að taka sér leyfi frá þingstörfum vegna ummæla á bar í Reykjavík nýverið.

Una María er varmaður Gunnars Braga. Hún er lýðheilsufræðingur og uppeldis- og menntunarfræðingur. Una María hefur áður starfað sem verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu auk þess að hafa verið aðstoðarmaður umhverfisráðherra. Hún hefur áður tekið sæti á þingi sem varaþingmaður, fyrst árið 2005 fyrir Framsóknarflokkinn og síðan nú í haust fyrir Miðflokkinn.

Í samtali við fréttastofu segist Una María vera glöð að fá þetta tækifæri, þó hún hafi viljað að aðstæðurnar væru öðruvísi. Hún setur ekki fyrir sig að vinna með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, hinum þingmönnum Miðflokksins sem heyrast á upptökunum á barnum.

Jón Þór er varamaður Bergþórs Ólasonar í norðvesturkjördæmi. Hann er flugmaður. Hann hefur áður tekið sæti sem varaþingmaður á Alþingi, fyrst í apríl á þessu ári og svo í október. Ekki náðist í Jón Þór við vinnslu þessarar fréttar.