Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Umsóknum um alþjóðlega vernd fækkar um 40%

15.08.2018 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi eru 40 prósentum færri í ár en á sama tíma 2017. Flestir sem hafa sótt um á þessu ári eru írakskir ríkisborgarar. Tíu Írökum hefur verið synjað.

Umsóknir um alþjóðlega vernd frá janúar til júlí á þessu ári voru 370. Á sama tíma í fyrra voru þær 626. Þeim fækkar því um rétt rúm 40%. Í fyrra voru flestir umsækjendur frá Georgíu og næst flestir frá Albaníu. Nú eru flestir frá Írak. Frá janúar til júlí hafa 78 Írakar sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Á sama tíma í fyrra voru þeir 58 en 2017 sóttu alls 111 frá Írak um vernd á Íslandi - töluvert fleiri en árið 2015 þegar umsækjendur voru 28.  

10 Írökum synjað eftir efnismeðferð

Allir írakskir ríkisborgar sem fengu efnismeðferð á umsókn sinni hjá Útlendingastofnun árin 2015 og 2016 var veitt vernd á Íslandi. Í fyrra var þremur synjað og það sem af er ári hafa sjö fengið synjun. Ef ekki hafa verið tekin fingraför af umsækjendum í öðru landi og mál þeirra fær efnismeðferð hjá Útlendingastofnun bera íslensk stjórnvöld ábyrgð á umsókninni og er hún skoðuð út frá heimalandi umsækjanda.

Í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu til Útlendingastofnunar um þessa breytingu segir: „Við mat á því hvort einstaklingur þurfi á alþjóðlegri vernd að halda er ekki einungis horft til þjóðernis heldur lagt mat á aðstæður á því landsvæði sem viðkomandi kemur frá auk persónubundinna ástæðna viðkomandi. Ástandið í ýmsum landshlutum Íraks hefur farið batnandi undanfarið. Írösk stjórnvöld hafa náð aftur stjórn á sumum svæðum og ofbeldi minnkað. Þá er ástandið á sjálfsstjórnarsvæði Kúrda í norðausturhluta landsins talið stöðugt.“

Synjanir oftast kærðar

Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun eru ákvörðunum stofnunarinnar um synjun alþjóðlegrar verndar í langflestum tilvikum kærðar til kærunefndar útlendingarmála sem ýmist staðfestir niðurstöður, hnekkir þeim eða sendir aftur til meðferðar Útlendingastofnunar.

Samkvæmt upplýsingum frá kærunefnd útlendingamála hefur nefndin staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja tveimur umsækjendum frá Írak um alþjóðlega vernd. Í svari við fyrirspurn fréttastofu til Útlendingastofnunar segir að til þessa hafi engum Íraka, sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd hér á landi, verið fylgt til Írak af stoðdeild ríkislögreglustjóra.