Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Umsóknir frá Albönunum bárust í gærkvöldi

15.12.2015 - 07:40
Mynd: RÚV / RÚV
Umsóknir hafa borist allsherjarnefnd frá albönsku fjölskyldunum tveimur sem vísað var úr landi í liðinni viku. Þetta segir Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis. Hún segir misjafnt hversu langan tíma afgreiðsla umsókna tekur.

 Rætt var við Unni Brá á Morgunvaktinni á Rás 1. 

Við höfum fengið tvær umsóknir frá tveimur fjölskyldum og fengum þær í gærkvöldi. Við í allsherjarnefnd þurfum að fara yfir þær, kalla eftir frekari gögnum og fara yfir málið og taka afstöðu í því.“

Það hversu langan tíma tekur að fara yfir umsóknirnar fer eftir því hversu aðgengileg þau gögn sem vantar eru, segir Unnur Brá.  „Við þurfum að fara hratt í það að átta okkur á því hvað það er sem vantar.“

Litið til löggjafarinnar við skoðun umsóknanna

Langveik börn eru í báðum fjölskyldunum. Innanríkisráðherra hefur farið fram á skýringar á atburðarrásinni fram að brottvísun fjölskyldnanna. Unnur Brá segir allsherjarnefnd einnig hafa kallað eftir upplýsingum vegna málsins.

Sú gagnrýni hefur verið sett fram að með því að leyfa fjölskyldunum að flytjast til landsins sé opnað fyrir það að fleiri útlendingar með veik börn sæki um ríkisborgararétt hér á landi. „Það er auðvitað ekki það sem við erum að líta til og þa ð fordæmi erum við ekki að gefa. Þetta eru sérstök mál sem varða börn sem voru hér á landi,“ segir Unnur Brá. Litið sé til þess við skoðun umsóknanna hvort fjölskyldurnar hafi fengið rangar upplýsingar og hvort ekki hafi verið litið nægilega til ákvæða barnasáttmálans og mannúðar í þeirri löggjöf sem nú er til staðar. „Það er á þeim grundvelli sem við í nefndinni erum að skoða þessar umsóknir.“

„Okkur þykir þetta stundum óþægilegt“

Aðspurð segir Unnur Brá það sérstakt að þjóðþing fari yfir persónuleg gögn og ákveði hvort viðkomandi fær að verða Íslendingur eða ekki. „Jú það er mjög sérstakt og okkur þykir þetta stundum svolítið óþægilegt vegna þess að við þingmenn erum almennt ekki að vasast í málefnum einstaklinga heldur erum við að setja lög sem gilda fyrir alla og svo framvegis. En þetta er löggjöfin og við búum við það að hafa þetta verkefni og við þurfum þá að sinna því.“

Unnur segir að það hafi verið rætt í Allsherjarnefnd að það sé sérstakt að hafa þessi mál á þeirra borði. „En hvaða önnur leið er fær er eitthvað sem við erum ekki búin að sjá þannig að sú vinna er í raun ekki farin í gang. En það má vel vera að lögin um ríkisborgararétt verði endurskoðun. Það er það sem allsherjarnefnd hefur verið að ræða.“

Þverpólitísk þingmannanefnd er starfandi um breytingar á útlendingalöggjöfinni. „Það er ríkur vilji hjá þessari ríkisstjórn að gera úrbætur á löggjöfinni. Við höfum skilað af okkur, skiluðum formlega af okkur um miðjan nóvember, og erum nú að bíða eftir því að frumvarpið komi frá ríkisstjórninni og inn í þingið.“ 

 

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV