Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Umskurðarbann gæti skaðað hagsmuni Íslands

03.04.2018 - 16:54
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Háttsettir menn úr alþjóðakerfinu hafa haft samband við íslenska utanríkisráðuneytið og lýst áhyggjum af frumvarpi Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingkonu Framsóknarflokksins, um að umskurður drengja verði gerður refsiverður. Ráðuneytið segir ekki útilokað að yrði frumvarpið að lögum setti það Ísland í neikvætt ljós og hefði áhrif á íslenska hagsmuni.

Þetta kemur fram í umsögn utanríkisráðuneytisins um frumvarpið sem birtist á vef Alþingis í dag. Þar segir að viðbrögð við frumvarpinu erlendis frá hafi verið töluverð. Sendiráð Íslands í Evrópu og Norður-Ameríku, einkum í Þýskalandi, Bandaríkjunum og Bretlandi, hafi fengið sendan fjölda erinda frá einstaklingum og samtökum sem flest eigi það sameiginlegt að vera gagnrýnin á frumvarpið. Oftast sé þar vísað til trúfrelsisástæðna. Einnig hafi borist erindi, greinar og viðtöl þar sem stuðningi er lýst við frumvarpið.

Sendierindrekar spyrjast fyrir og hafa áhyggjur

Þá segir í umsögn ráðuneytisins að fjölmiðlaumfjöllun í þessum ríkjum hafi verið nokkur og mörg af stærstu samtökum gyðinga verið áberandi í umræðunni. Enn fremur hafi sendierindrekar einstakra ríkja gagnvart Íslandi spurst fyrir um frumvarpið og í einstaka tilvikum lýst áhyggjum sínum af afleiðingum þess verði það að lögum.

„Þá hafa borist ábendingar frá háttsettum einstaklingum innan alþjóðakerfisins um að, þrátt fyrir augljósan góðan ásetning og með réttindi barns að leiðarljósi, gætu lög í þessa veru verið túlkuð sem andúð gegn ákveðnum trúar- og menningarheimum og þannig alið á öfgahyggju á tímum þar sem mannréttindi eiga mjög undir högg að sækja á heimsvísu,“ segir í umsögninni, sem Matthías G. Pálsson, sendifulltrúi á laga- og stjórnsýsluskrifstofu ráðuneytisins, skrifar undir.

Ekki fámennir jaðarhópar heldur þriðjungur mannkyns

Matthías segir í umsögninni að ekki sé einfalt að meta hver viðbrögðin yrðu erlendis frá ef frumvarpið yrði óbreytt að lögum. Þó sé ljóst að umskurður á drengjum eigi sér mjög djúpar rætur í trúar- og menningarlífi gyðinga og múslima og einnig óháð trú, eins og í Bandaríkjunum og mörgum Afríkuríkjum.

„Hér er því ekki um fámenna jaðarhópa að ræða, heldur hóp sem gæti talið um þriðjung mannkyns. Af þessum sökum er ekki útilokað að málið setti Ísland í neikvætt ljós á meðal fjölmargra aðila og hefði áhrif á íslenska hagsmuni – til skemmri tíma hið minnsta,“ segir í umsögninni.

Ísland fylgi frekar fordæmi Norðurlandanna

Matthías segir að ráðuneytið telji, í samræmi við áherslur íslenskra stjórnvalda í mannréttindamálum, rétt að túlka ætíð vafaatriði börnum í hag og því megi segja að andi barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna samræmist illa umskurði á drengjum. Ákjósanlegt væri ef ákvarðanir um inngrip af því tagi yrðu ekki teknar fyrr en einstaklingur hefði nægilegan þroska til að taka upplýsta ákvörðun. Ráðuneytið styðji því vilja löggjafans til að stíga skref í þessa átt.

Hins vegar telji ráðuneytið ákjósanlegra að gæta meira jafnvægis gagnvart andstæðum sjónarmiðum og fara frekar þá leið sem önnur Norðurlönd hafi farið: að geta þess í lögum að umskurður á drengjum sé einungis heimilaður ef aðgerðin er gerð af viðurkenndum læknayfirvöldum og með samþykki drengsins eða forráðamanns hans.