Umsækjendum um alþjóðlega vernd fækkar

16.10.2017 - 16:39
Útlendingastofnun
 Mynd: ruv
Umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi voru 40 prósentum færri í september síðastliðnum en í september í fyrra. Í september í fyrra sóttu 176 um alþjóðlega vernd hér á landi en 104 nú í ár.

Þetta er í fyrsta skipti á þessu ári sem umsóknum hefur fækkað samanborið við sama mánuð í fyrra, að því er fram kemur í tilkynningu frá dómsmálaráðuneyti. Síðustu tvö ár hefur umsóknum aftur á móti fjölgað á haustin.

Umsóknum frá ríkisborgurum ríkja sem eru á lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki hefur fækkað og sömuleiðis hefur hlutfall þeirra af umsóknum lækkað. Þær voru um 75 prósent allra umsókna í júlí og ágúst en 63 prósent í september. Í tilkynningunni segir að þar muni mestu um fækkun umsókna ríkisborgara Georgíu sem voru 89 í ágúst en 39 í september.

Líklegt er að fækkunina megi að hluta rekja til breytinga á reglugerð sem tók gildi síðasta sumar, að því er segir í tilkynningunni. Með henni var Útlendingastofnun veitt heimild til að hraða málsmeðferð eins og unnt er, sérstaklega varðandi umsóknir einstaklinga frá ríkjum sem stofnunin metur örugg. Reglugerðin felur einnig í sér að heimild til að fella niður þjónustu við fólk frá öruggum ríkjum um leið og ákvörðun liggur fyrir.

Umsóknum um alþjóðlega vernd á hinum Norðurlöndunum hefur fækkað frá árinu 2015 en fjölgað hér á landi. Á 20 mánaða tímabili, frá 1. Janúar 2016 til 31. ágúst 2017, voru flestar umsóknir á hverja 10.000 íbúa hér á landi, eða 56. Næst flestar umsóknir voru í Svíþjóð, 46. Fæstar umsóknir bárust yfirvöldum í Noregi eða 12, 15 í Danmörku og 17 í Finnlandi.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi