Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Umræða á samfélagsmiðlum geti valdið kulnun lækna

22.01.2020 - 10:00
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Umræða á samfélagmiðlum getur haft neikvæð áhrif á lækna og valdið kulnun þeirra í starfi að mati læknis á heilsustofnun Hveragerðis. Kulnun sé vaxandi vandamál innan stéttarinnar.

Kulnun lækna var til umræðu á læknadögum sem eru í Hörpu í vikunni.  „Þetta er stórt vandamál. Almennt stórt vandamál í þjóðfélaginu og streita á vinnustöðum. En enn alvarlegra vandamál hjá læknum en öðrum starfsstéttum,“ segir Haraldur Erlendsson, geðlæknir.

„Ég held að þetta sé vaxandi vandamál. Þetta er mikið áhyggjuefni af því er virðist samkvæmt rannsóknum hjá þeim sem eru á fyrstu fimm árum eftir útskrift úr læknanámi. Þetta er mun alvarlegra hjá konum. Þær eru nú að verða meirihluti í læknastéttinni,“ segir Benedikt Sveinsson, læknir á Heilsustofnun Hveragerðis.

Benedikt segir að umræða á samfélagsmiðlum hafi mikil áhrif. Hann veit dæmi þess að læknar séu níddir á samfélagsmiðlum og geti ekki svarað fyrir sig vegna þess að þeir séu bundnir trúnaði. „Það er gríðarlega mikið áreiti á samfélagsmiðlum af almenningi. Almenningur hefur eiginlega frítt skotmark á okkur. Sá sem gerir mistök er strax kominn í umfjöllun og á kannski ekki afturkvæmt inn í sitt samfélag. Það verður einhvern veginn að taka á þessu, að þetta ástand skapist ekki,“ segir Benedikt.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Haraldur Erlendsson, geðlæknir.

Haraldur segir að samráðsvettvangur smærri hópa innan stéttarinnar geti verið lausnin við kulnun. „Þar sem þeir ræða sína líðan, hvernig vinnustaðurinn er, hvernig samskiptin eru og svo framvegis. Það eru fullt af rannsóknum sem sýna að þetta skipti sennilega mestu máli af öllu.“

Á meðan minna vinnuálag er svarið að mati margra. „Draga úr yfirvinnu. Ég sé í samningum að menn eru að stytta vinnuvikuna um einhverjar mínútur. Það er allt of lítið. 35 stunda vinnuvika, hún á ekki að vera lengri að mínu mati,“ segir Gerður Aagot Árnadóttir, heimilislæknir á heilsugæslunni í Garðabæ.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Gerður Aagot Árnadóttir, heimilislæknir á heilsugæslunni í Garðabæ.