Alls fundust lík 27 manna á Nataruk-svæðinu í Kenýa, um 30 kílómetrum vestur af Turkana vatni. Eitt þeirra var enn með flugbeitta hrafntinnu fasta í höfuðkúpunni. Annað hafði greinilega hlotið tvö höfuðhögg með barefli og þunguð kona virtist hafa verið bundin á höndum og fótum. Önnur lík voru með ýmis konar beinbrot og áverka á hálsi.
Marta Mirazon Lahr, steingervinga-mannfræðingur og ein fjölmargra vísindamanna sem rannsökuðu svæðið, segir í samtali við Reuters að fundurinn sýni öll merki þess að setið hafi verið fyrir fólkinu. Árásin hafi líklega verið gerð í þeim tilgangi að drepa þá sem gætu varið sig eða gert gagn-árás. Önnur tilgáta Mirazon Lahr er að þetta hafi verið fólk sem kom árásarmönnunum ekki að neinu gagni, þunguð kona og of ungir eða of gamlir karlmenn, en meðal líkanna voru sex börn.
Eldri rætur stríðsátaka
Fólkið tilheyrði hópi veiðimanna og safnara og breytir árásin hugmyndum sérfræðinga um fyrsta stríðið. Fram til þessa töldu sérfræðingar að fyrstu átök hafi orðið á milli samfélaga þar sem menn höfðu fasta búsetu, en veiðimenn og safnarar voru hópar flökkufólks.
Að mati greinarhöfunda sýnir árásin að félagslegar og hagrænar ástæður stríðsátaka eigi sér eldri rætur en áður. Líklega hafi árásarmennirnir litið á eignir fólksins sem þeir drápu sem verðmæti, mögulega vatnið þeirra, þurrkað kjöt eða fisk, hnetur eða jafnvel konur og börn, segir í greininni.