Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ummæli um Stígamót ekki svaraverð

05.05.2011 - 18:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Ummæli formanns þjóðhátíðarnefndar eru ekki svaraverð, segja samtökin Stígamót. Þau afhjúpi mikla fáfræði og fordóma gagnvart kynferðisbrotum.

Í viðtali í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í dag sagði Páll Scheving Ingvarsson, formaður þjóðhátíðarnefndar, að hann stæði við vikugömul ummæli sín um að að vandamálin virðist vera fleiri og stærri þegar Stígamót eru á hátíðinni. Hann vísaði til þjóðhátíðar fyrir sautján árum þar sem samtökin hafi í fréttum RÚV talað ógætilega um að hópur nauðgara væri á leiðinni til Eyja. Einnig gagnrýndi hann fjölda mála sem Stígamót tilgreindu eftir þá hátíð.

Guðrún Jónsdóttir, hjá Stígamótum, segir það dæmi um rökþrot að formaður þjóðhátíðarnefndar dragi upp sautján ára gamalt mál sem enginn af núverandi starfsmönnum samtakanna geti staðfest eða mótmælt. Ummælin séu ekki svara verð. Hún segir formanninn afhjúpa mikla fáfræði og fordóma á málefninu.

Guðrún gerir athugasemdir við orð Páls um að samtökin ýki fjölda kynferðisbrota. Hún segir að fjórtán stúlkur hafi leitað til samtakanna í fyrra vegna nauðgana á útihátíðum, þar á meðal eftir þjóðhátíð. Í mörgum tilfellum vegna atvika sem hafi átt sér stað nokkrum árum áður. „Málflutningur formanns þjóðhátíðarnefndar er ekki falinn til þess að örva foreldra til þess að hleypa börnum sínum til Eyja ef þetta er viðhorfið,“ sagði Guðrún í viðtali í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.