Ummæli Ögmundar um FBI vekja athygli

11.12.2016 - 10:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ummæli sem Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, lét falla um bandarísku alríkislögregluna, FBI, í viðtali við vefsíðuna Katoikos hafa vakið nokkra athygli. Þar segir hann að FBI hafi sent flugvél fulla af lögreglumönnum til Íslands til að fá íslensk stjórnvöld til að taka þátt í aðgerð sem átti að koma sök á Julian Assange, stofnanda Wikileaks.

Meðal þeirra sem hafa fjallað um þessi ummæli Ögmundar eru Daily Mail og Russia Today.  

Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, upplýsti í Kastljósi í byrjun árs 2013 að Ögmundur hefði vísað lögreglumönnum frá FBI úr landi sumarið 2011.

Forsvarsmenn FBI komu undir því yfirskini að ráðleggja íslenskum stjórnvöldum vegna yfirvofandi tölvuárásar á stjórnarráðið en seinna kom í ljós að þeir vildu ræða við Sigurð Inga Þórðarson, Sigga hakkara, í tengslum við Wikileaks-málið svokallaða. Sigurður Ingi greindi síðan frá því á fundi með allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis í febrúar 2013 að FBI hefði viljað nota hann sem tálbeitu innan raða Wikileaks.

Ögmundur er afdráttarlaus í viðtalinu við Katoikos og segir að „eins og málið horfði við mér þá sendi FBI einkaflugvél hingað til lands með fullt af lögreglumönnum, gagngert til að fá íslensk stjórnvöld til að taka þátt í aðgerð sem miðaði að því að koma sök á Julian Assange og Wikileaks.“

Á vef Daily Mail kemur fram að ákvörðun Ögmundar um að vísa lögreglumönnum FBI úr landi hafi vakið mikla athygli á sínum tíma en að þetta sé í fyrsta skipti sem hann taki svo sterkt til orða - að FBI hafi viljað koma sök á Assange. Í viðtalinu segir Ögmundur jafnframt að hann myndi alltaf taka sér stöðu við hlið Assange frekar en FBI. Og að hann hafi komið þeim skilaboðum áleiðis til bandarísku alríkislögreglunnar á sínum tíma.

Ögmundur telur mikilvægi uppljóstrara mikið - heimsbyggðin eigi fólki eins og Chelsea Manning, Edward Snowden, Julian Assange og Wikileaks mikið að þakka. Hann segir að ef íslensk stjórnvöld myndu veita Edward Snowden íslenskan ríkisborgararétt væru þau að heiðra lýðræðið, opnara samfélag og uppljóstrara. Píratar hafa sagt að ef flokkurinn kæmist til valda myndi hann beita sér fyrir því að Snowden fengi íslenskan ríkisborgararétt.

Ögmunduri sagði við upphaf þingfundar í júlí 2013 að hann vildi bjóða Snowden landvist hér á landi. „Ég er að tala um að Alþingi og Íslendingar hafi forgöngu um það að bjóða þessum einstaklingi sem heimsbyggðin öll á skuld að gjalda landvist.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi