„Umhverfisvænasta stóriðja á Íslandi“

30.07.2016 - 20:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Búið er að tryggja raforku fyrir sólarkísilverksmiðju Silicor Materials á Grundartanga frá og með 2020. Verksmiðjan gæti orðið lyftistöng fyrir Akranesbæ, að mati bæjarstjórans.

Bandaríska fyrirtækið Silicor Materials hyggst fjárfesta fyrir um 120 milljarða króna hér á landi. Fyrirtækið fær tæplega fimm milljarða króna ríkisaðstoð í formi skattaafsláttar og annarra ívilnana. Áætlað er að verksmiðjan skapi um 450 störf, þar af 150 fyrir háskólamenntaða. 

„Þetta yrði lyftistöng fyrir þetta atvinnusvæði, og ekki kannski bara á Akranesi heldur líka fyrir nærliggjandi byggðir, allt bara frá Reykjavík og upp í Borgarbyggð,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi. „Þarna eru tækni- og verkfræðistörf og ég vildi náttúrulega óska þess að sjá fleiri konur í slíkum störfum. Okkur hefur vantað vinnu fyrir ungar háskólamenntaðar konur. ​En ég myndi gjarnan vilja sjá að ungar konur hér á Akranesi sæu þetta sem tækifæri.

Allt bendi til að verksmiðjan hafi ekki neikvæð umhverfisáhrif

Iðnaðarsvæðið verður um 24 hektarar, en stefnt er að því að framleiða 16 þúsund tonn á ári af sólarkísli fyrir sólarrafhlöður. Starfsemin er tilkynningarskyld samkvæmt lögum en Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að verksmiðjan þyrfti ekki að gangast undir fullt mat á umhverfisáhrifum. Í ákvörðun stofnunarinnar segir meðal annars að ekkert hafi komið fram við meðferð málsins sem benti til þess að starfsemin kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Niðurstaða Skipulagsstofnunar hefur verið kærð og málið verður tekið fyrir hjá héraðsdómi Reykjavíkur í vetur. „Skipulagsstofnun hefur metið það þannig að verksmiðjan þurfi ekki að fara í umhverfismat og það er deilt um það núna og við verðum bara að sjá hver niðurstaðan verður, en svona miðað við stóriðju, þá benda allar skýrslur og allar rannsóknir til þess að þarna sé um að ræða umhverfisvænustu stóriðju á Íslandi,“ segir Regína.

Að sögn Davíðs Stefánssonar, talsmanns Silicor Materials, hefur fyrirtækið samið við Orku náttúrunnar um flutning raforku fyrir verksmiðjuna frá 2020. Fyrirtækið vonast þó til að geta hafið starfsemi fyrr.

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi