Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Umhverfisvænasta knattspyrnufélag veraldar

24.08.2015 - 15:57
Mynd: Forest Green Rovers / Facebook
Áhugafólk um ensku knattspyrnuna er yfirleitt ekki að velta fyrir sér umhverfisþáttum hennar. Stefán Gíslason tekur efnið fyrir í pistli sínum í Samfélaginu í dag.

Margir Íslendingar fylgjast af miklum áhuga með ensku knattspyrnunni og hafa tekið ástfóstri við einstök fótboltalið þar í landi. Þeir sem fylgjast best með vita næstum allt um lið, leikmenn, úrslit síðustu umferða og stöðuna í úrvalsdeildinni, svo eitthvað sé nefnt. Hins vegar hafa líklega færri velt fyrir sér frammistöðu einstakra liða á umhverfissviðinu. Þessi frammistaða skiptir vissulega líka miklu máli, því að í þessum geira er hægt að finna fjöldann allan af tækifærum til úrbóta hvað þetta varðar.

Það fótboltalið í Englandi sem er yfirleitt talið öðrum fremra í umhverfismálum er reyndar ekki meðal efstu liða í úrvalsdeildinni. Þetta er liðið Forest Green Rovers sem leikur í neðri deildunum og var reyndar síðast þegar ég vissi efst í sinni deild með fullt hús stiga, þ.e.a.s. 15 stig eftir 5 leiki. Þar á bæ eru umhverfismálin algjört forgangsmál. Sem dæmi um aðgerðir félagsins í umhverfismálum má nefna að þar er unnið að því að gera heimavöllinn óháðan vatnslögnum með því að nýta regnvatn og aðra vætu sem til fellur á svæðinu til vökvunar. Þá er eingöngu boðið upp á grænmetisfæði á veitingastað vallarins og um þessar mundir er unnið að hönnun á nýju 40 ha grænu íþróttasvæði með nýjum velli og æfingavöllum. Þar er einnig gert ráð fyrir að reist verði grænt tæknisetur þar sem í framtíðinni munu starfa hátt í 4.000 manns.

Þó að Forest Green Rovers leiki ekki í efstu deild vantar ekkert á metnaðinn. Liðið vill vera þekkt sem umhverfisvænasta knattspyrnufélag veraldar og vera þannig öðrum félögum fyrirmynd. Þess vegna vill félagið líka verða meira áberandi í knattspyrnuheiminum, þó að sjálfsagt þurfi að bíða í einhver ár eftir því að það tróni á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Fyrst minnst er á ensku úrvalsdeildina er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvað sé verið að gera á þeim vettvangi til að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið. Í tilefni af upphafi nýrrar leiktíðar fyrr í þessum mánuði gerði umhverfisfréttaveitan EDIE lauslega úttekt á helstu umhverfisverkefnum liðanna sem eru þar í fararbroddi. Þar er reyndar fyrst frá því að segja að enska knattspyrnusambandið hefur lýst því yfir að þar sé sjálfbærni höfð að leiðarljósi. Sambandið hefur m.a. látið útbúa orkustýringarkerfi fyrir knattspyrnuvöllinn á Wembley til að hafa stjórn á vatns-, orku- og úrgangsmálum vallarsvæðisins.

Af umhverfismálum einstakra félaga er það m.a. að frétta að hjá Chelsea hefur lengi verið unnið með málefni sjálfbærrar þróunar. Þar er m.a. lögð mikil áhersla á samfélagslega ábyrgð, auk þess sem félagið er aðili að átakinu Green-500 þar sem markmiðið er að minnka kolefnislosun um 10%. Þá hefur Chelsea látið setja upp orkusparandi vallarlýsingu og allur úrgangur sem til fellur er endurnýttur eða endurunninn.

Hjá Manchester United státa menn sig af því að hafa notað endurunnið gúmmí úr 2.200 hjólbörðum við framkvæmdir á völlum félagsins. Þessi vellir eiga að nýtast ungmennum úr næsta nágrenni.

Arsenal nýtti tækifærið sem fólst í flutningunum á Emirates völlinn til að taka til hendinni í umhverfismálum. Völlurinn er talinn vera einn sá umhverfisvænsti í öllu Bretlandi, sem endurspeglast m.a. í góðri orkunýtingu og uppsetningu LED-ljósa sem hafa minnkað orkunotkun um 20%. Þar er líka lögð mikil áhersla á að allur úrgangur rati í réttan farveg. Þaðan fara t.d. að meðaltali 10 tonn af pappa og plasti í endurvinnslu í hverjum mánuði og eftir hvern leik er einu og hálfi tonni af gleri bjargað frá því að lenda í urðun. Þegar unnið var að gerð vallarins lagði félagið mikið fé til samfélagsins og lét m.a. byggja endurvinnslumiðstöð fyrir 60 milljónir sterlingspunda, sem jafngildir rúmum 12 milljörðum íslenskra króna. Samtals námu fjárfestingar félagsins í nærumhverfinu reyndar mun hærri upphæð eða sem samsvarar um 80 milljörðum íslenskra króna.

Aston Villa hefur ekki heldur setið auðum höndum á umhverfissviðinu. Þar er verið að þreifa sig áfram með að nýta regnvatn af þökum leikvangsins til að rækta ávexti og grænmeti fyrir veitingastað félagsins. Villa Park gefur sig líka út fyrir að vera kolefnishlutlaus knattspyrnuvöllur, en því er náð með því að leggja fé í loftslagsverkefni á vegum annarra. Starfsemin er með öðrum orðum ekki kolefnislaus heldur kolefnisjöfnuð.

Hjá Newcastle halda menn því fram að félagið sé fyrsta kolefnisjákvæða knattspyrnufélagið í heiminum, þ.e.a.s. að þar sé meira bundið af kolefni en sem nemur losuninni. Stórum hluta þess er þó að því er virðist náð með kolefnisjöfnun. Félagið hefur beint því til stuðningsmanna sinna að nota deilibíla til að draga úr útblæstri frá umferð og á heimasíðu félagsins getur fólk staðfest vilja sinn til að taka upp umhverfisvænni lífsstíl.

Nú kann einhver að halda að umhverfismál knattspyrnunnar séu léttvæg í heildarsamhenginu. Vissulega losnar lítið af koltvísýringi og lítill úrgangur myndast þegar sparkað er í bolta. En þegar haft er í huga hversu mikil umsvif eru í kringum knattspyrnuna er augljóst að það skiptir gríðarlegu máli hvernig haldið er utan um umhverfismál greinarinnar. Væntanlega eru augu fólks að opnast fyrir þessu og í upphafi yfirstandandi leiktíðar voru stuðningsmenn liðanna í ensku úrvalsdeildinni hvattir til að sameinast um bíla á ferðum sínum á útileiki. Eflaust eru þessi ferðalög ofarlega á lista yfir umhverfisþætti knattspyrnunnar, en svo má heldur ekki gleyma því að knattspyrnufélög, rétt eins og önnur íþróttafélög, gegna mikilvægu uppeldis- og fræðsluhlutverki og geta sem slík haft mikil áhrif til góðs með fordæmi sínu.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvernig íslenskir stuðningsmenn einstakra liða í ensku úrvalsdeildinni geti haft áhrif á frammistöðu sinna manna í umhverfismálum. Fyrsta skrefið í því er væntanlega að kynna sér hvernig þessum málum sé háttað hjá liðinu. Séu þau ekki í góðu lagi er kannski ráð að halda bara með einhverjum öðrum.

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður