Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Umhverfisskattar til skoðunar

05.05.2017 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin undirbýr nú aðgerðir svo Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Draga á úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030 miðað við losun ársins 1990, líkt og í ríkjum Evrópusambandsins og Noregi.

Sex ráðherrar undirrituðu í morgun samstarfsyfirlýsingu um gerð aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum. Í tilkynningu segir að Ísland losi mjög lítið af gróðurhúsalofttegundum við rafmagnsframleiðslu og húshitun þar sem sú orka komi að nær öllu leyti frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Helstu tækifæri landsins til að draga enn frekar úr losun liggi í samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og landnotkun. Rafvæðing bílaflotans sé til að mynda raunhæf leið til að nýta innlenda græna orku á hagkvæman hátt og sjávarútvegurinn hefur mikla möguleika á að draga frekar úr losun í gegnum til að mynda orkuskipti og tæknilausnir við veiðar.

Sérstök áhersla verður lögð á að skoða hvar hægt er að beita grænum hvötum og umhverfissköttum til að ýta undir þróun íslensks samfélags í átt að lágkolefnishagkerfi.

Áætlunin verður unnin undir forystu forsætisráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, en fjármála- og efnahagsráðuneytið, samgönguráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið munu einnig taka fullan þátt í gerð hennar