
Umhverfisráðuneytið óþarft í framtíðinni?
Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra segir það framtíðarsýn að í hinum fullkomna heimi verði umhverfisráðuneytið óþarft. Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segir að með sömu rökum mætti leggja niður fjármálaráðuneytið og flytja verkefni þess til annara ráðuneyta. Henni hugnast ekki að umhverfisráðuneyið verði lagt niður og segir þá sýn vera gamaldags.
Ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra og ráðherra atvinnuvega, í Bændablaðinu í síðustu viku hafa vakið talsverða athygli. Blaðamaður spurði hann hvort hann væri að segja að í framtíðinni yrði umhverfisráðuneytið óþarft vegna þess að málaflokkurinn hafi verið tekinn inn í önnur ráðuneyti. Ráðherra jánkaði þessu og sagði að það mætti í raun segja að það gæti verið niðurstaðan. Það væri þó þannig að alltaf væri einhver stjórnsýsla í kringum leyfisveitingar og annað slíkt sem hyrfi ekki og að henni þyrfti að finna stað. Arnar Páll Hauksson ræðir við Sigurð Inga í Spegli dagsins.